67. kafli - Dráp Þorgils Höllusonar
Þórarinn hét maður er bjó í Langadal. Hann var goðorðsmaður og ekki ríkur.
Son hans hét Auðgísl. Hann var frálegur maður. Þorgils Hölluson tók af þeim
feðgum goðorðið og þótti þeim það hin mesta svívirðing. Auðgísl fór á fund
Snorra goða og sagði honum þenna ójafnað og bað hann ásjá.
Snorri svarar vel að einu og tók lítinn af öllu og mælti: "Gerist hann
Hölluslappi nú framgjarn og áburðarmikill. Hvort mun Þorgils enga þá menn
fyrir hitta að eigi muni honum allt vilja þola? Er það víst auðsætt að hann
er mikill maður og knálegur en komið hefir orðið slíkum mönnum í hel sem
hann er."
Snorri gaf Auðgísli öxi rekna er hann fór í brott.
Um vorið fóru þeir Þorgils Hölluson og Þorsteinn svarti suður til
Borgarfjarðar og buðu bætur sonum Helga og öðrum frændum hans. Var sæst á
það mál og var ger góð sæmd. Galt Þorsteinn tvo hluti bóta vígsins en
Þorgils skyldi gjalda þriðjung og skyldi greiða á þingi.
Þetta sumar reið Þorgils til þings. Og er þeir komu á hraunið að Völlum sáu
þeir konu ganga í móti sér. Sú var mikil harðla. Þorgils reið í móti henni
en hún veik undan og kvað þetta:
Kosti fyrðar
ef framir þykjast
og varist við svo
vélum Snorra.
Engi mun við varast,
vitr er Snorri.
Síðan gekk hún leið sína.
Þá mælti Þorgils: "Sjaldan fór svo þá er vel vildi að þú færir þá af þingi
er eg fór til þings."
Þorgils ríður nú á þingið og til búðar sinnar og var kyrrt öndvert þingið.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.