Þorgils ríður við þetta frá Helgafelli og með honum fóstbræður hans. Kemur
hann heim í Tungu til bús síns og unir stórilla sínum hlut.
66. kafli - Andlát Ósvífurs
Þann vetur tók Ósvífur sótt og andaðist. Það þótti mannskaði mikill því að
hann hafði verið hinn mesti spekingur. Ósvífur var grafinn að Helgafelli því
að Guðrún hafði þar þá látið gera kirkju.
Á þeim sama vetri fékk sótt Gestur Oddleifsson og er að honum leið sóttin þá
kallaði hann til sín Þórð lága son sinn og mælti: "Svo segir mér hugur um að
þessi sótt muni skilja vora samvistu. Eg vil mig láta færa til Helgafells
því að sá staður mun verða mestur hér í sveitum. Þangað hefi eg oft ljós
séð."
Eftir þetta andaðist Gestur. Veturinn hafði verið kuldasamur og voru íslög
mikil og hafði langt lagt út Breiðafjörð svo að eigi mátti á skipum komast
af Barðaströnd. Lík Gests stóð uppi tvær nætur í Haga. En þá sömu nótt gerði
á veður svo hvasst að ísinn rak allan frá landi en um daginn eftir var veður
gott og lygnt. Þórður tók skip og lagði á lík Gests og fara þeir suður um
daginn yfir Breiðafjörð og koma um kveldið til Helgafells. Var þar vel tekið
við Þórði og er hann þar um nóttina. Um morguninn var niður sett lík Gests
og hvíldu þeir Ósvífur í einni gröf. Kom nú fram spásagan Gests að skemmra
var í milli þeirra en þá er annar var á Barðaströnd en annar í Sælingsdal.
Þórður hinn lági fer heim þegar hann er búinn. Hina næstu nótt eftir gerði á
æðiveður. Rak þá ísinn allan að landi. Hélt því lengi um veturinn að ekki
mátti þar á skipum fara. Þóttu að þessu mikil merki að svo gaf til að fara
með lík Gests að hvorki var fært áður né síðan.