Síðan gengu þeir á fjallið upp og sátu þar á tali allt til kvelds. Vissi það
engi maður hvað þeir töluðu. Síðan reið Styr heim.
Um morguninn eftir gengu þeir Halli á tal. Spyr Halli Styr hvern stað eiga
skal hans mál.
Styr svarar: "Það er mál manna að þú þykir heldur félítill eða hvað skaltu
til þessa vinna með því að þú hefir eigi fé fram að leggja?"
Halli svarar: "Til mun eg vinna það er eg má en eigi tek eg þar fé er eigi
er til."
Styr svarar: "Sé eg," sagði hann, "að það mun þér mislíka ef eg gifti þér
eigi dóttur mína. Nú mun eg gera sem fornir menn að eg mun láta þig vinna
til ráðahags þessa þrautir nokkurar."
"Hverjar eru þær?" segir Halli.
"Þú skalt ryðja," segir Styr, "götu yfir hraunið út til Bjarnarhafnar og
leggja hagagarð yfir hraunið mill landa vorra og gera byrgi hér fyrir innan
hraunið. En að þessum hlutum fram komnum mun eg gifta þér Ásdísi dóttur
mína."
Halli svarar: "Eigi er eg vanur til vinnu en þó mun eg undir þetta játtast
ef eg skal þá auðveldlega komast að ráðahagnum."
Styr kvað þá þessu kaupa mundu.
Eftir þetta tóku þeir að ryðja götuna og er það hið mesta mannvirki. Þeir
lögðu og garðinn sem enn sér merki. Og eftir það gerðu þeir byrgið.
En meðan þeir voru að þessu verki lét Styr gera baðstofu heima undir Hrauni
og var grafin í jörð niður og var gluggur yfir ofninum, svo að utan mátti á
gefa, og var það hús ákaflega heitt.
Og er lokið var mjög hvorutveggja verkinu, var það hinn síðasta dag er þeir
voru að byrginu, þá gekk Ásdís Styrsdóttir hjá þeim en það var nær bænum.
Hún hafði tekið sinn besta búnað. En er þeir Halli mæltu við hana svarar hún
engu.