Um daginn eftir gengur Þorgils til tals við Guðrúnu og mælti: "Svo er háttað
sem þú veist Guðrún að eg hefi fram komið ferðinni þeirri er þú baðst mig
til. Tel eg það fullmannlega af höndum innt. Vænti eg og að eg hafi því vel
vart. Þú munt það og muna hverjum hlutum þú hefir mér heitið þar í mót.
Þykist eg nú til þess kaups kominn."
Þá mælti Guðrún: "Ekki hefir síðan svo langt liðið er við ræddumst við að
mér sé það úr minni liðið. Ætla eg og það eina fyrir mér að efna við þig
allt það er eg varð á sátt. Eða hvers minnir þig um hversu mælt var með
okkur?"
Þorgils kvað hana muna mundu.
Guðrún svarar: "Það hygg eg að eg héti þér því að giftast engum manni
samlendum öðrum en þér. Eða viltu nokkuð mæla í móti þessu?"
Þorgils kvað hana rétt muna.
"Þá er vel," segir Guðrún, "ef okkur minnir eins um þetta mál. Vil eg og
ekki lengur draga þetta fyrir þér að eg ætla þess eigi auðið verða að eg sé
þín kona. Þykist eg enda við þig öll ákveðin orð þó að eg giftist Þorkatli
Eyjólfssyni því að hann er nú eigi hér á landi."
Þá mælti Þorgils og roðnaði mjög: "Gerla skil eg hvaðan alda sjá rennur
undir. Hafa mér þaðan jafnan köld ráð komið. Veit eg að þetta eru ráð Snorra
goða."
Sprettur Þorgils upp þegar af þessu tali og var hinn reiðasti, gengur til
förunauta sinna og sagði að hann vill í brott ríða.
Þorleiki líkar illa er svo var hagað að Þorgísli var eigi geð á en Bolli
samþykkist hér um vilja móður sinnar. Guðrún kvaðst gefa skyldu Þorgísli
góðar gjafir og blíðka hann svo. Þorleikur kvað það ekki tjá mundu "því að
Þorgils er miklu skapstærri maður en hann muni hér að smáhlutum lúta vilja."
Guðrún kvað hann og þá heima huggast skyldu.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.