Nú vil eg," segir Halli, "leita eftir staðfastri vináttu við þig og biðja að
þú giftir mér Ásdísi dóttur þína en þar í mót vil eg leggja mína vináttu og
trúlega fylgd og svo mikinn styrk með krafti Leiknis bróður míns að á
Íslandi skal eigi fást jafnmikil frægð í tveggja manna fylgd sem við skulum
þér veita. Skal og okkur framkvæmd meir styrkja þinn höfðingskap en þó að þú
giftir dóttur þína þeim bónda er mestur er í Breiðafirði. Skal það þar í mót
koma að við erum eigi fésterkir. En ef þú vilt hér engan kost á gera þá mun
það skilja vora vináttu. Munu þá og hvorir verða að fara með sínu máli sem
líkar. Mun þá og raunlítið tjóa að vanda um tal okkart Ásdísar."
En er hann hafði þetta mælt þá þagnaði Styr og þótti nokkur vandi á svörum
og mælti er stund leið: "Hvort er þessa leitað með alhuga eða er þetta
orðaframkast og málaleitan?"
"Svo skaltu svara," segir Halli, "sem þetta sé eigi hégómatal og mun hér öll
vor vinátta undir felast hversu þessu máli verður svarað."
Styr mælti: "Þá vil eg þetta mál tala við vini mína og taka ráð af þeim
hversu þessu skal svara."
Halli mælti: "Þetta mál skaltu tala við þá menn er þér líkar, innan þriggja
nátta. Vil eg eigi þessi svör láta draga fyrir mér lengur því að eg vil eigi
vera vonbiðill þessa ráðs."
Og eftir þetta skildu þeir.
Um morguninn eftir reið Styr inn til Helgafells. Og er hann kom þar bauð
Snorri honum þar að vera en Styr kvaðst tala vilja við hann og ríða síðan.
Snorri spurði ef hann hefði nokkur vandamál að tala.
"Svo þykir mér," sagði Styr.
Snorri svarar: "Þá skulum við ganga upp á Helgafell. Þau ráð hafa síst að
engu orðið er þar hafa ráðin verið."
"Þér skuluð slíku ráða," sagði Styr.