Lambi reiddist mjög við orðtak þeirra og kvað þá kunna sig ógerla er þeir
veittu honum átölur "því að eg hefi dregið yður undan dauða," segir hann.
Skiptust þeir síðan fám orðum við því að hvorumtveggjum líkaði þá verr en
áður. Ríður Lambi heim til bús síns.
Þorgils Hölluson ríður út til Helgafells og með honum synir Guðrúnar og
fóstbræður hans, Halldór og Örnólfur. Þeir komu síðla um kveldið til
Helgafells svo að allir menn voru í rekkjum. Guðrún rís upp og bað menn upp
standa og vinna þeim beina. Hún gengur til stofu og heilsar Þorgísli og
öllum þeim og spurði þá tíðinda. Þorgils tók kveðju Guðrúnar. Hann hafði þá
lagt af sér kápuna og svo vopnin og sat þá upp til stafa. Þorgils var í
rauðbrúnum kyrtli og hafði um sig breitt silfurbelti. Guðrún settist niður í
bekkinn hjá honum.
Þá kvað Þorgils vísu þessa:
Sóttum heim að Helga,
hrafn létum ná svelgja,
ruðum fagrröðuls eiki
þá er fylgdum Þorleiki.
Þrjá létum þar falla,
þjóðnýta gervalla,
hjálm allkæna þolla.
Hefnt teljum nú Bolla.
Guðrún spurði þá vendilega að þessum tíðindum er orðið höfðu í för þeirra.
Þorgils sagði slíkt er hún spurði. Guðrún kvað ferðina orðna hina
snöfurlegstu og bað þá hafa þökk fyrir. Eftir það er þeim beini veittur og
er þeir voru mettir var þeim fylgt til rekkna. Sofa þeir af nóttina.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.