Arnkatli brá mjög við þetta og hratt henni frá sér og mælti: "Far brott,"
segir hann, "og seg svo frændum Vigfúss að þeir skjöplist eigi meir í
liðveislunni móti Snorra goða en eg mun í fyrirvist málanna. En svo segir
mér hugur um hversu sem þetta mál fer að fyrr leggi þeir undir land en eg.
En sé eg að þetta eru ráð Vermundar er þú ferð nú með en eigi mun hann þurfa
að eggja mig fram hvar sem við mágar erum staddir."
Síðan fór Þorgerður heim. Leið veturinn. En um vorið bjó Arnkell mál um víg
Vigfúss á hendur þeim mönnum öllum er til vígs höfðu farið nema Snorra goða
en Snorri lét til búa fjörráðamál við sig og áverkamál Más til óhelgi
Vigfúsi og fjölmenntu hvorirtveggju til Þórsnessþings og veittu allir
Kjalleklingar Arnkatli og urðu þeir fjölmennari. Hélt Arnkell fram þessum
málum með mikilli freku.
Og er málin komu í dóm gengu menn að og voru málin í gerð lagin með umgangi
og sættarboðum góðgjarnra manna og kom svo að Snorri goði gekk til handlaga
fyrir víg Vigfúss og voru þá gervar miklar fésektir. En Már skyldi vera utan
þrjá vetur. En Snorri galt fé upp og lauk svo þinginu að þar var sæst á öll
mál.
28. kafli
Nú gerðist það næst til tíðinda, sem fyrr er ritað, að berserkir voru með
Styr. Og er þeir höfðu þar verið um hríð slóst Halli á tal við Ásdísi dóttur
Styrs. Hún var ung kona og sköruleg, ofláti mikill og heldur skapstór.
En er Styr fann tal þeirra þá bað hann Halla eigi gera sér svívirðing eða
skapraun í því að glepja dóttur hans.
Halli svarar: "Það er þér engi svívirðing þó að eg tali við dóttur þína. Vil
eg það og eigi gera til vanvirðu við þig. Er þér það skjótt af að segja að
eg hefi svo mikinn ástarhug til hennar fellt að eg fæ það eigi úr hug mér
gert.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.