Helgi mælti: "Enn skal þessi hinn gamli þora að sjá í mót vopnum" og fleygði
öxinni að Þorgísli og kom öxin á fót honum og varð það mikið sár.
Og er Bolli sá þetta þá hleypur hann að Helga og hafði í hendi Fótbít og
lagði í gegnum Helga. Var það banasár hans. Þeir fylgdarmenn Helga hlaupa
þegar úr selinu og svo Harðbeinn. Þorleikur Bollason víkur í móti Eyjólfi.
Hann var sterkur maður. Þorleikur hjó til hans með sverði og kom á lærið
fyrir ofan kné og tók af fótinn og féll hann dauður til jarðar. En Húnbogi
hinn sterki hleypur í móti Þorgilsi og hjó til hans með öxi og kom á
hrygginn og tók hann sundur í miðju. Þórður köttur var nær staddur þar er
Harðbeinn hljóp út og vildi þegar ráða til hans. Bolli hleypur til er hann
sá þetta og bað eigi veita Harðbeini skaða: "Skal hér engi maður vinna
klækisverk og skal Harðbeini grið gefa."
Helgi átti annan son er Skorri hét. Sá var að fóstri á Englandi í Reykjardal
hinum syðra.
65. kafli - Heimkoma þeirra bræðra
Eftir þessi tíðindi ríða þeir Þorgils í brott og yfir hálsinn til
Reykjardals og lýstu þar vígum þessum, riðu síðan hina sömu leið vestur sem
þeir höfðu vestan riðið, léttu eigi sinni ferð fyrr en þeir komu í Hörðadal.
Þeir segja nú þessi tíðindi er gerst höfðu í för þeirra. Varð þessi ferð hin
frægsta og þótti þetta mikið stórvirki er slíkur kappi hafði fallið sem
Helgi var. Þorgils þakkar mönnum vel ferðina og slíkt hið sama mæltu þeir
bræður Bollasynir. Skiljast þeir menn nú er í ferð höfðu verið með Þorgísli.
Lambi ríður vestur til Laxárdals og kemur fyrst í Hjarðarholt og sagði þeim
frændum sínum innilega frá þessum tíðindum er orðið höfðu í Skorradal. Þeir
létu illa yfir hans ferð og töldu mjög á hendur honum, kváðu hann meir hafa
sagst í ætt Þorbjarnar skrjúps en Mýrkjartans Írakonungs.