Þeir voru fleiri er í móti mæltu. Þorgils kvað Þorleik ráða skyldu því að
hann vissi að Þorleikur var manna skyggnastur, snúa nú að selinu. Hrappur
hleypir fram fyrir og dúði spjótsprikuna er hann hafði í hendi og lagði fram
fyrir sig og kvað þá vera allt mál að reyna sig. Verða þeir Helgi þá eigi
fyrr varir við en þeir Þorgils taka á þeim selið. Þeir Helgi lúka aftur
hurðina og taka vopn sín. Hrappur hleypur þegar upp á selið og spurði hvort
skolli væri inni.
Helgi svarar: "Fyrir það mun þér ganga sem sá sé nokkuð skæður er hér býr
inni að hann muni bíta kunna nær greninu."
Og þegar lagði Helgi spjóti út um selsglugginn og í gegnum Hrapp. Féll hann
dauður til jarðar af spjótinu.
Þorgils bað þá fara varlega og gæta sín við slysum "því að vér höfum ærin
efni til að vinna selið og Helga þar sem hann er nú kominn því að eg hygg að
hér sé fátt manna fyrir."
Selið var gert um einn ás og lá hann á gaflhlöðum og stóðu út af ásendarnir
og var einart þak á húsinu og ekki gróið. Þá mælti Þorgils að menn skyldu
ganga að ásendunum og treysta svo fast að brotnaði eða ella gengi af inn
raftarnir en sumir skyldu geyma duranna ef þeir leituðu út. Fimm voru þeir
Helgi inni í selinu. Harðbeinn son hans var þar, hann var tólf vetra gamall,
og smalamaður hans og tveir menn aðrir er það sumar höfðu komið til hans og
voru sekir. Hét annar Þorgils en annar Eyjólfur. Þorsteinn svarti stóð fyrir
selsdurunum og Sveinn son Dala-Álfs en þeir aðrir förunautar rifu af ræfrið
af selinu og höfðu þeir þar skipt liði til. Tók annan ásenda Húnbogi hinn
sterki og þeir Ármóðssynir en þeir Þorgils og Lambi annan ásenda og þeir
synir Guðrúnar. Treysta þeir nú fast á ásinn og brotnaði hann í sundur í
miðju. Og í þessi svipan lagði Harðbeinn út atgeiri úr selinu þar sem hurðin
var brotin. Lagið kom í stálhúfu Þorsteins svarta svo að í enninu nam
staðar. Var það mjög mikill áverki. Þá mælti Þorsteinn það er satt var að
þar voru menn fyrir. Því næst hljóp Helgi út um dyrnar svo djarflega að þeir
hrukku fyrir er næstir voru. Þorgils var þá nær staddur og hjó eftir honum
með sverði og kom á öxlina og varð það mikill áverki. Helgi snerist þá í
móti og hafði í hendi viðaröxi.