Þormóður Trefilsson kvað vísu þessa um víg Vigfúss:
Felldi fólksvaldi
fyrst hins gullbyrsta
velti valgaltar,
Vigfús þann hétu.
Slíta þar síðan
sára benskárar
bráð af böð-Nirði,
Bjarnar arfnytja.

27. kafli
Eftir þetta fór Þorgerður út undir Hraun og bað Styr mæla eftir Vigfús
frænda sinn.
Hann svarar: "Því hét eg Snorra goða í vor þá er hann sat hjá málum vorum
Þorgestlinga að eg skyldi eigi með fjandskap ganga í mót honum um þau mál er
margir væru jafnnær sem eg. Nú máttu sækja Vermund bróður minn að þessu máli
eða aðra frændur vora."
Eftir það fór hún út til Bjarnarhafnar og beiddi Vermund liðveislu og kallar
honum vandast um "því að Vigfús trúði þér best af öllum sínum frændum."
Vermundur svarar: "Skyldur er eg hér nokkuð gott til að leggja en eigi nenni
eg að ganga í þetta vandræði fyrir aðra frændur vora. En vera skal eg
aðveitandi bæði með framkvæmd og ráðum, slíkt er eg fæ að gert. Vil eg fyrst
að þú farir út á Eyri og finnir Steinþór frænda Vigfúss. Honum er nú
léttvígt og er mál að hann reyni sig í nokkurs konar málaferlum."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.