Hann svarar: "Þá sátu tveir menn. Þeir voru líkir sýnum og mundu vera
miðaldra menn og hinir knálegustu, rauðir á hárlit og freknóttir í andliti
og þó vel sýnum."
Helgi mælti: "Gerla skil eg hverjir þessir menn eru. Þar eru þeir
Ármóðssynir fóstbræður Þorgils, Halldór og Örnólfur, og ertu skilvís maður.
Eða hvort eru nú taldir þeir menn er þú sást?"
Hann svarar: "Litlu mun eg nú við auka. Þá sat þar næst maður og horfði út
úr hringinum. Sá var í spangabrynju og hafði stálhúfu á höfði og var
barmurinn þverrar handar breiður. Hann hafði öxi ljósa um öxl og mundi vera
alnar fyrir munn. Sjá maður var dökklitaður og svarteygur og hinn
víkinglegsti."
Helgi svarar: "Þenna mann kenni eg glöggt að frásögn þinni. Þar hefir verið
Húnbogi hinn sterki son Álfs úr Dölum og vant er mér að sjá hvað þeir vilja
og mjög hafa þeir valda menn til ferðar þessar."
Sveinninn mælti: "Og enn sat maður þar hið næsta þessum hinum sterklega
manni. Sá var svartjarpur á hár, þykkleitur og rauðleitur og mikill í
brúnum, hár meðalmaður."
Helgi mælti: "Hér þarftu eigi lengra frá að segja. Þar hefir verið Sveinn
son Álfs úr Dölum, bróðir Húnboga, og betra mun oss að vera eigi ráðlausum
fyrir þessum mönnum því að nær er það minni ætlan að þeir muni vilja hafa
minn fund áður þeir losni úr héraði og eru þeir menn í för þessi er vorn
fund munu kalla skaplegan þó að hann hefði nokkuru fyrr að hendi komið. Nú
skulu konur þær sem hér eru að selinu snarast í karlföt og taka hesta þá er
hér eru hjá selinu og ríða sem hvatast til veturhúsa. Kann vera að þeir sem
nær oss sitja þekki eigi hvort þar ríða karlar eða konur. Munu þeir þurfa
lítils tóms að ljá oss áður vér munum koma mönnum að oss og er þá eigi sýnt
hvorra vænna er."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.