"Þú skalt fara til Helgafells og ganga í loft það er þar er yfir útidyrum og
rýma fjalir í gólfinu svo að þú fáir þar lagt atgeiri í gegnum. En þá er
Snorri gengur til kamars þá skaltu leggja atgeirinum í gegnum loftsgólfið í
bak Snorra svo fast að út gangi um kviðinn, hlaup síðan út á ræfrið og svo
ofan fyrir vegginn og lát náttmyrkrið gæta þín."
Og með þessu ráði fór Svartur til Helgafells og rauf ræfrið yfir útidyrum og
gekk þar inn í loftið. Það var í þann tíma er þeir Snorri sátu við málelda.
Í þann tíma voru útikamrar á bæjum. En er þeir Snorri gengu frá eldinum
ætluðu þeir til kamarsins og gekk Snorri fyrstur og bar undan út í dyrnar
áður tilræðið Svarts varð. En Már Hallvarðsson gekk næst Snorra og lagði
Svartur atgeirinum til hans og kom lagið á herðarblaðið og renndi út undir
höndina og skar þar út og varð það eigi mikið sár.
Svartur hljóp út og ofan fyrir vegginn. Honum varð hált á brústeinunum og
féll hann fall mikið er hann kom niður og fékk Snorri tekið hann áður hann
stóð upp. Voru þá hafðar af honum sannar sögur og sagði hann þá allt hversu
farið hafði með þeim Vigfúsi og svo það að hann er að kolbrennu undir
Seljabrekkum. Síðan var bundið sár Más.
Eftir það fóru þeir Snorri sjö saman út til Drápuhlíðar. Sáu þeir, þá er
þeir koma upp í hlíðina, eldinn er þeir Vigfús brenndu kolin. Þeir komu að
þeim Vigfúsi óvörum og drápu Vigfús en gáfu grið húskörlum hans. Síðan fór
Snorri heim en húskarlar Vigfúss sögðu þessi tíðindi heim í Drápuhlíð.
Vigfús var heygður eftir um daginn.
Þann sama dag fór Þorgerður kona Vigfúss inn á Bólstað að segja Arnkatli
frænda sínum og bað hann taka við eftirmáli um víg Vigfúss. En Arnkell veik
því af sér og kvað það koma til Kjalleklinga frænda hans og vísaði hann
þessu máli helst á Styr, segir hans vera að mæla eftir Vigfús frænda sinn
með því að hann vildi þó í mörgu starfa.