Þá svarar Helgi: "Vendilega hefir þú að þessum manni hugað. Mun og mikils um
þenna mann vert vera. En ekki mun eg þenna mann séð hafa. En þó mun eg geta
til hver hann er. Það hygg eg að þar hafi verið Bolli Bollason því að það er
mér sagt að hann sé efnilegur maður."
Þá mælti sveinninn: "Þá sat maður í smeltum söðli. Sá var í gulgrænum
kyrtli. Hann hafði mikið fingurgull á hendi. Sá maður var hinn fríðasti
sýnum og mun enn vera á ungum aldri, jarpur á hárslit og fer allvel hárið og
að öllu var hann hinn kurteisasti maður."
Helgi svarar: "Vita þykist eg hver þessi maður mun vera er þú hefir nú frá
sagt. Þar mun vera Þorleikur Bollason og ertu skýr maður og glöggþekkinn."
Sveinninn segir: "Þar næst sat ungur maður. Hann var í blám kyrtli og í
svörtum brókum og gyrður í brækur. Sá maður var réttleitur og hvítur á
hárlit og vel farinn í andliti, grannlegur og kurteislegur."
Helgi svarar: "Þenna mann kenni eg og hann mun eg séð hafa og mundi þá vera
maðurinn allungur. Þar mun vera Þórður Þórðarson fóstri Snorra goða og hafa
þeir kurteist lið mjög Vestfirðingarnir. Hvað er enn þá?"
Þá mælti sveinninn: "Þá sat maður í skoskum söðli, hár í skeggi og skolbrúnn
mjög, svartur á hár og skrúfhár og heldur ósýnilegur og þó garplegur. Hann
hafði yfir sér fellikápu grá."
Helgi segir: "Glöggt sé eg hver þessi maður er. Þar er Lambi Þorbjarnarson
úr Laxárdal og veit eg eigi hví hann er í för þeirra bræðra."
Sveinninn mælti: "Þá sat maður í standsöðli og hafði ysta heklu blá og
silfurhring á hendi. Sá var búandlegur og heldur af æsku aldri, dökkjarpur á
hár og hrökk mjög. Hann hafði ör í andliti."
"Nú versnar mjög frásögnin," sagði Helgi. "Þar muntu séð hafa Þorstein
svarta mág minn og víst þykir mér undarlegt er hann er í þessi ferð og eigi
mundi eg veita honum slíka heimsókn. Eða hvað er enn þá?"

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.