"Annað mál er það," sagði Styr, "að eg leysi vandræði þitt en hitt að þiggja
menn þessa af þér í vingjöf og það vil eg eigi. En vandræði þitt er engi
maður jafnskyldur að leysa sem eg ef okkur þykir einn veg báðum."
En þó að Styr mælti svo um þá kaus Vermundur að Styr tæki við berserkjunum
og skilja þeir bræður nú með kærleik.
Fór Styr þá heim og berserkirnir með honum og voru þeir þess eigi fúsir í
fyrstu og kalla Vermund eigi eiga að selja sig né gefa sem ánauðga menn en
þó kalla þeir nær sínu skapi að fylgja Styr en Vermundi. Og fóru þeirra
skipti mjög líklega fyrst.
Þá voru berserkirnir með Styr er hann fór vestur um fjörð að drepa Þorbjörn
kjálka er bjó í Kjálkafirði. Hann átti lokrekkju sterka gerva af
timburstokkum og brutu berserkirnir þegar upp svo að af gengu nafarnar fyrir
utan, en þó varð Styr banamaður Þorbjarnar kjálka.

26. kafli
Það haust er berserkirnir komu til Styrs varð það til tíðinda að Vigfús í
Drápuhlíð fór til kolgerðar þangað sem heita Seljabrekkur og með honum
þrælar hans þrír. Einn hét Svartur hinn sterki.
Og er þeir komu í skóginn mælti Vigfús: "Allmikill harmur er það, og svo mun
þér þykja Svartur, er þú skalt vera ánauðigur maður svo sem þú ert sterkur
og drengilegur að sjá."
"Víst þykir mér mikið mein að því," segir hann, "en eigi er mér það
sjálfrátt."
Vigfús mælti: "Hvað viltu til vinna að eg gefi þér frelsi?"
"Eigi má eg það með fé kaupa, því að eg á ekki, en þá hluti er eg má mun eg
enga til spara."
Vigfús mælti: "Þú skalt fara til Helgafells og drepa Snorra goða en eftir
það skaltu sannlega fá frelsi þitt og þar með góða kosti er eg skal veita
þér."
"Því mun eg eigi til leiðar koma," segir Svartur.
"Eg skal ráð til setja," segir Vigfús, "það er þetta skal framkvæmt verða
mannhættulaust."
"Heyra vil eg það," segir Svartur.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.