Eftir það kallar Þorgils Lamba til móts við sig og biður Þorstein heyra tal
þeirra og mælti: "Slíkt sama mál vil eg við þig ræða Lambi sem eg hefi upp
borið við Þorstein. Hverja sæmd viltu bjóða sonum Bolla fyrir sakarstaði þá
er þeir eiga við þig? Því að það er oss með sönnu sagt að þú ynnir á Bolla.
Fer það saman að þú ert sakbitinn í meira lagi fyrir því að þú eggjaðir mjög
að Bolli væri drepinn. Var og við þig í meira lagi vorkunn þegar er leið
sonu Ólafs."
Lambi spurði hvers beitt mundi vera. Þorgils svarar að slíkur kostur mundi
honum ger sem Þorsteini, að ráðast í ferð með þeim bræðrum.
Lambi segir: "Illt þykir mér friðkaup í þessu og ódrengilegt. Er eg ófús
þessar farar."
Þá mælti Þorsteinn: "Eigi er einsætt Lambi að skerast svo skjótt undan
ferðinni því að hér eiga stórir menn í hlut og þeir er mikils eru verðir en
þykjast lengi hafa setið yfir skörðum hlut. Er mér sagt um sonu Bolla að
þeir séu þroskavænlegir menn og fullir ofurkapps en eiga mikils að reka.
Megum vér ekki annað ætla en leysast af nokkuru eftir slík stórvirki. Munu
menn og mér mest til ámælis leggja þetta fyrir sakir tengda með okkur Helga.
Þykir mér og sem svo verði flestum gefið að allt láti fjörvi fyrri. Verður
því vandræði fyrst að hrinda er bráðast kemur að höndum."
Lambi mælti: "Auðheyrt er það hvers þú fýsir Þorsteinn. Ætla eg það vel
fallið að þú ráðir þessu ef þér sýnist svo einsætt því að lengi höfum við
átt vandræðafélag mikið saman. Vil eg það til skilja ef eg geng að þessu að
þeir frændur mínir, Ólafssynir, sitji kyrrir og í friði ef hefnd gengur fram
við Helga."
Þorgils játtar þessu fyrir hönd þeirra bræðra.
Réðst nú þetta að þeir Þorsteinn og Lambi skulu ráðast með Þorgísli til
ferðar, kváðu á með sér að þeir skyldu koma þriðja dag snemma í Tungu í
Hörðadal. Eftir þetta skilja þeir. Ríður Þorgils heim um kveldið í Tungu.
Líður nú sjá stund er þeir höfðu á kveðið að þeir skyldu koma á fund Þorgils
er til ferðar voru ætlaðir með honum. Þriðja myrgininn fyrir sól koma þeir
Þorsteinn og Lambi í Tungu. Fagnar Þorgils þeim vel.