Um daginn eftir taka þau tal með sér, Þorgils og Guðrún, en Guðrún hóf svo
mál sitt: "Svo þykir mér Þorgils sem synir mínir nenni eigi kyrrsetu þessi
lengur svo að þeir leiti eigi til hefnda eftir föður sinn. En það hefir mest
dvalið hér til að mér þóttu þeir Þorleikur og Bolli of ungir hér til að
standa í mannráðum. En ærin hefir nauðsyn til verið að minnast þess nokkuru
fyrr."
Þorgils svarar: "Því þarftu þetta mál ekki við mig að ræða að þú hefir þvert
tekið að ganga með mér. En allt er mér það samt í hug og fyrr þá er við
höfum þetta átt að tala. Ef eg nái ráðahag við þig þá vex mér ekki í augu að
stinga af einnhvern þeirra eða báða tvo þá er næst gengu vígi Bolla."
Guðrún mælti: "Svo þykir mér sem Þorleiki virðist engi jafn vel til fallinn
að vera fyrirmaður ef það skal nokkuð vinna er til harðræða sé. En þig er
ekki því að leyna að þeir sveinarnir ætla að stefna að Helga Harðbeinssyni,
berserkinum, er situr í Skorradal að búi sínu og uggir ekki að sér."
Þorgils mælti: "Aldregi hirði eg hvort hann heitir Helgi eða öðru nafni því
að hvorki þykir mér ofurefli að eiga við Helga eða einnhvern annan. Er um
þetta mál allt rætt fyrir mína hönd ef þú heitir mér með vottum að giftast
mér ef eg kem hefndum fram með sonum þínum."
Guðrún kvaðst það efna mundu allt er hún yrði á sátt þótt það væri við fárra
manna vitni gert og sagði hún að þetta mundi að ráði gert. Guðrún bað þangað
kalla Halldór fóstbróður hans og þá sonu sína. Þorgils bað og Örnólf við
vera.
Guðrún kvað þess enga þörf: "Eru mér meiri grunir á um trúleika Örnólfs við
þig en eg ætla þér vera."
Þorgils bað hana ráða.
Nú koma þeir bræður á fund Guðrúnar og Þorgils. Þar var Halldór í tali með
þeim.
Guðrún segir þeim nú skyn á að "Þorgils hefir heitið að gerast fyrirmaður
ferðar þeirrar að veita heimferð að Helga Harðbeinssyni með sonum mínum að
hefna Bolla. Hefir Þorgils það til mælt ferðarinnar að hann næði ráðahag við
mig. Nú skírskota eg því við vitni yðru að eg heiti Þorgísli að giftast
engum manni öðrum samlendum en honum en eg ætla ekki að giftast í önnur
lönd."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.