23. kafli
Vigfús sonur Bjarnar Óttarssonar bjó í Drápuhlíð sem fyrr segir. Hann átti
Þorgerði Þorbeinisdóttur. Hann var gildur bóndi og ódældarmaður mikill. Með
honum var á vist systursonur hans er Björn hét. Hann var örorður maður og
ógegn.
Um haustið eftir Máhlíðingamál fundust stóðhross Þorbjarnar digra á fjalli
og hafði hesturinn eigi haldið högum fyrir hesti Þórarins og hafði fennt
hrossin og fundust öll dauð.
Þetta sama haust áttu menn rétt fjölmenna í Tungu milli Laxá upp frá
Helgafelli. Þangað fóru til réttar heimamenn Snorra goða. Var Már
Hallvarðsson föðurbróðir Snorra fyrir þeim. Helgi hét sauðamaður hans. Björn
frændi Vigfúss lá á réttargarðinum og hafði fjallstöng í hendi. Helgi dró
sauði. Björn spurði hvað sauð það væri er hann dró. En er að var hugað þá
var mark Vigfúss á sauðnum.
Björn mælti: "Slundasamlega dregur þú sauðina í dag Helgi."
"Hættara mun yður það," segir Helgi, "er sitjið í afrétt manna."
"Hvað mun þjófur þinn vita til þess," segir Björn og hljóp upp við og laust
hann með stönginni svo að hann féll í óvit.
Og er Már sá þetta brá hann sverði og hjó til Bjarnar og kom á höndina upp
við öxl og varð það mikið sár. Eftir það hljópu menn í tvo staði en sumir
gengu í milli og skildu þá svo að eigi varð fleira til tíðinda þar.
Um morguninn eftir reið Vigfús ofan til Helgafells og beiddi bóta fyrir
vansa þenna en Snorri sagði að hann kveðst eigi mun gera þeirra atburða er
þar höfðu orðið. Þetta líkaði Vigfúsi illa og skildu þeir með hinum mesta
styttingi.
Um vorið bjó Vigfús áverkamálið til Þórsnessþings en Snorri drepið til
óhelgi við Björn og urðu þau málalok að Björn varð óheilagur af frumhlaupinu
við Helga og fékk engar bætur fyrir áverkann en hann bar í fatla höndina
jafnan síðan.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.