Guðrún mælti: "Vera kann að vér fáum ekki jafnmæli af þeim Laxdælunum en
gjalda skal nú einnhver í hverjum dal sem hann býr. Skal og nú þar að snúa
er Þorsteinn svarti er því að engi hefir sér verra hlut af deilt þessum
málum en hann."
Snorri mælti: "Slíkt er Þorsteinn í sökum við yður sem þeir menn er í tilför
voru vígs Bolla og unnu ekki á honum. En þú lætur þá menn sitja hjá kyrra er
mér þykir sem í meira lagi sé hefnd í en hafi þó borið banorð af Bolla er
Helgi er Harðbeinsson."
Guðrún mælti: "Satt er það en eigi má eg vita að þessir menn sitji um kyrrt
allir er eg hefi áður þenna fjandskap miklað á hendur."
Snorri svarar: "Eg sé þar gott ráð til. Þeir Lambi og Þorsteinn skulu vera í
ferð með sonum þínum og er þeim Lamba það maklegt friðkaup. En ef þeir vilja
eigi það þá mun eg ekki mæla þá undan að eigi skapið þér þeim slíkt víti sem
yður líkar."
Guðrún mælti: "Hvernig skal að fara að koma þessum mönnum til ferðar er þú
hefir upp nefnt?"
Snorri mælti: "Það verða þeir að annast er fyrir skulu vera ferðinni."
Guðrún mælti: "Þar munum vér hafa þína forsjá á því hver ferðinni skal
stjórna og fyrir vera."
Þá brosti Snorri og mælti: "Hér hefir þú kyrið mann til."
Guðrún mælti: "Þetta muntu tala til Þorgils."
Snorri segir svo vera.
Guðrún mælti: "Rætt hefi eg þetta áður við Þorgils og er sem því sé lokið
því að hann gerði þann einn kost á er eg vildi ekki á líta. En ekki fór
Þorgils undan að hefna Bolla ef hann næði ráðahag við mig. En þess er borin
von og mun eg því ekki biðja hann til þessarar ferðar."
Snorri mælti: "Hér mun eg gefa ráð til fyrir því að eg fyrirman Þorgísli
ekki þessar ferðar. Honum skal að vísu heita ráðahag og gera það þó með
undirmálum þeim að þú sért engum manni samlendum gift öðrum en Þorgísli og
það skal enda því að Þorkell Eyjólfsson er nú eigi hér á landi en eg hefi
honum ætlað þenna ráðahag."