Sorry for the mistake in posting the latest segment of Laxdaela Saga! This
is where we are supposed to be.
Grace
Hamar stendur fyrir norðan ána er Höfði heitir. Það er í Lækjarskógslandi. Í
þeim stað hafði Guðrún á kveðið að þau Snorri skyldu finnast. Þau komu þar
mjög jafnsnemma. Fylgdi og einn maður Guðrúnu. Var það Bolli Bollason. Hann
var þá tólf vetra gamall en fullkominn var hann að afli og hyggju svo að
þeir voru margir er eigi biðu meira þroska þó að alrosknir væru. Hann bar þá
og Fótbít.
Þau Snorri og Guðrún tóku þegar tal en Bolli og förunautur Snorra sátu á
hamrinum og hugðu að mannaferðum um héraðið. Og er þau Snorri og Guðrún
höfðu spurst tíðinda þá frétti Snorri að erindum, hvað þá hefði nýlega við
borið er hún sendi svo skyndilega orð.
Guðrún mælti: "Það er satt að mér er þessi atburður spánnýr er eg mun nú upp
bera en þó varð hann fyrir tólf vetrum því að um hefndina Bolla mun eg
nokkuð ræða. Má þér það og ekki að óvörum koma því að eg hefi þig á minnt
stundum. Mun eg það og fram bera að þú hefir þar til heitið mér nokkurum
styrk ef eg biði með þolinmæði. En nú þykir mér rekin von að þú munir gaum
að gefa voru máli. Nú hefi eg beðið þá stund er eg fæ mér skap til en þó
vildi eg hafa heil ráð af yður hvar hefnd þessi skal niður koma."
Snorri spurði hvar hún hefði helst ætlað.
Guðrún mælti: "Það er minn vilji að þeir haldi eigi allir heilu Ólafssynir."
Snorri kvaðst það banna mundu að fara á hendur þeim mönnum er mest voru
virðir í héraði "en náfrændur þeirra er nær munu ganga hefndunum og er allt
mál að ættvíg þessi takist af."
Guðrún mælti: "Þá skal fara að Lamba og drepa hann. Er þá af einn sá er
illfúsastur er."
Snorri svarar: "Er sök við Lamba þótt hann væri drepinn en eigi þykir mér
Bolla hefnt að heldur og eigi mun þeirra Bolla slíkur munur ger í sættum sem
vert er ef þeim vígum er saman jafnað."