20. kafli
Geirríður húsfreyja í Mávahlíð sendi þau orð inn á Bólstað að hún var þess
vís orðin að Oddur Kötluson hafi höggið höndina af Auði, kallaðist hafa til
þess orð hennar sjálfrar og svo kvað hún Odd hafa því hælst fyrir vinum
sínum.
Og er þeir Þórarinn og Arnkell heyrðu þetta riðu þeir heiman við tólfta mann
út til Mávahlíðar og voru þar um nótt.
En um morguninn riðu þeir út í Holt og er sén ferð þeirra úr Holti. Þar var
eigi karla fyrir fleira en Oddur.
Katla sat á palli og spann garn. Hún bað Odd sitja hjá sér "og ver hljóður
og kyrr."
Hún bað konur sitja í rúmum sínum "og verið hljóðar," kvað hún, "en eg mun
hafa orð fyrir oss."
Og er þeir Arnkell komu gengu þeir inn þegar og er þeir komu í stofu
heilsaði Katla Arnkatli og spurði að tíðindum. Arnkell kvaðst engi segja og
spyr hvar Oddur sé. Katla kvað hann farinn suður til Breiðavíkur "og mundi
hann eigi forðast fund þinn ef hann væri heima því að vér treystum þér vel
um drengskapinn."
"Vera má það," segir Arnkell, "en rannsaka viljum vér hér."
"Það skal sem yður líkar," segir Katla og bað matselju bera ljós fyrir þeim
og lúka upp búri "það eitt er hús læst á bænum."
Þeir sáu að Katla spann garn af rokki. Nú leita þeir um húsin og finna eigi
Odd og fóru brott eftir það.
Og er þeir komu skammt frá garðinum nam Arnkell staðar og mælti: "Hvort mun
Katla eigi hafa héðni veift um höfuð oss? Og hefir þar verið Oddur sonur
hennar er oss sýndist rokkurinn."
"Eigi er hún ólíkleg til," segir Þórarinn, "og förum aftur." Þeir gerðu svo.
Og er sást úr Holti að þeir hurfu aftur, þá mælti Katla við konur: "enn
skuluð þér sitja í rúmum yðrum en við Oddur munum fram ganga."
En er þau koma fram um dyr gekk hún í öndina gegnt útidyrum og kembir þar
Oddi syni sínum og sker hár hans.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.