Grímur mælti: "Nú hefir öðruvís orðið en þú mundir ætlað hafa því að nú mun
þitt líf vera á mínu valdi."
Þorkell kvaðst ekki mundu sér friðar biðja "því að mér hefir ógiftulega
tekist."
Grímur sagði ærin sín óhöpp þótt þetta liði undan: "Mun þér annarra forlaga
auðið verða en deyja á okkrum fundi og vil eg þér líf gefa en þú launa því
sem þú vilt."
Standa þeir nú upp báðir og ganga heim til skálans. Þorkell sér að Grím
mæðir blóðrás, tekur þá Sköfnungsstein og ríður og bindur við hönd Gríms og
tók þegar allan sviða og þrota úr sárinu.
Þeir voru þar um nóttina. Um morguninn býst Þorkell í brott og spyr ef
Grímur vilji fara með honum. Hann kveðst það að vísu vilja. Þorkell snýr
þegar vestur og kemur ekki á fund Eiðs, léttir ekki fyrr en hann kemur í
Sælingsdalstungu. Snorri goði fagnar honum með mikilli blíðu. Þorkell sagði
honum að ferð sjá hafði illa tekist.
Snorri kvað hafa vel orðið. "Líst mér giftusamlega á Grím. Vil eg og," segir
hann, "að þú leysir hann vel af hendi. Væri það nú mitt ráð vinur að þú
létir af ferðum og fengir þér staðfestu og ráðakost og gerist höfðingi sem
þú átt kyn til."
Þorkell svarar: "Oft hafa mér vel gefist yður ráð" og spurði ef hann hefði
um hugsað hverrar konu hann skyldi biðja.
Snorri svarar: "Þeirrar skaltu konu biðja er bestur kostur er en það er
Guðrún Ósvífursdóttir."
Þorkell kvað það satt vera að ráðahagurinn var virðulegur "en mikið þykir
mér á liggja ofstæki hennar," segir hann, "og stórræði. Hún mun vilja hefna
láta Bolla bónda síns. Þar þykist í ráðum vera með henni Þorgils Hölluson og
má vera að honum sé eigi allur getnaður að þessu. En vel er mér Guðrún að
skapi."
Snorri mælti: "Eg mun í því bindast að þér mun ekki mein verða að Þorgísli
en meiri von þykir mér að nokkur umskipti séu orðin um hefndina Bolla áður
þessi misseri séu liðin."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.