Eiður svarar: "Ekki er eg þess fús. Þykir mér þú miklu til hætta hversu
ferðin tekst en að eiga við heljarmann slíkan sem Grímur er. Ef þú vilt fara
þá far þú við marga menn svo að þú eigir allt undir þér."
"Það þykir mér engi frami," segir Þorkell, "að draga fjölmenni að einum
manni en það vildi eg að þú léðir mér sverðið Sköfnung og vænti eg þá að eg
skuli bera af einhleypingi einum þótt hann sé vel að sér búinn."
"Þú munt þessu ráða," segir Eiður, "en ekki kemur mér það á óvart þótt þú
iðrist eitthvert sinn þessa einræðis. En með því að þú þykist þetta gera
fyrir mínar sakir þá skal þér eigi þessa varna er þú beiðir því að eg ætla
Sköfnung vel niður kominn þótt þú berir hann. En sú er náttúra sverðsins að
eigi skal sól skína á hjöltin og honum skal eigi bregða svo að konur séu
hjá. Ef maður fær sár af sverðinu þá má það sár eigi græða nema lyfsteinn sá
sé riðinn við er þar fylgir."
Þorkell kvaðst þessa ætla vandlega að gæta og tekur við sverðinu en bað Eið
vísa sér leið þangað sem Grímur ætti bæli. Eiður kvaðst það helst ætla að
Grímur ætti bæli norður á Tvídægru við Fiskivötn. Síðan ríður Þorkell norður
á heiðina þá leið er Eiður vísaði honum og er hann sótti á heiðina mjög
langt sér hann hjá vatni einu miklu skála og sækir þangað til.
58. kafli - Af Þorkeli og Grími
Nú kemur Þorkell til skálans og sér hann þá hvar maður situr við vatnið við
einn lækjarós og dró fiska. Sá hafði feld á höfði. Þorkell stígur af baki og
bindur hestinn undir skálavegginum. Síðan gengur hann fram að vatninu þar
sem maðurinn sat. Grímur sá skuggann mannsins er bar á vatnið og sprettur
hann upp skjótt. Þorkell er þá kominn mjög svo að honum og leggur til hans
og kom á höndina fyrir ofan úlflið og var það ekki mikið sár. Grímur rann
þegar á Þorkel og takast þeir fangbrögðum. Kenndi þar brátt aflsmunar og
féll Þorkell og Grímur á hann ofan. Þá spurði Grímur hver þessi maður væri.
Þorkell kvað hann engu skipta.