Þá kvað Þórarinn:
Myndit vitr í vetri
vekjandi mig sekja,
þar á eg lífhvötuð leyfðan,
löngráns, um þær vánir,
ef niðbræði næðag
nás valfallins ásar,
Hugins létum nið njóta
nágrundar, Vermundi.
Þá mælti Geirríður: "Það er nú ráðlegast að leita að slíkum tengdamönnum sem
Vermundur er eða Arnkell bróðir minn."
Þórarinn svarar: "Meiri von að hvortveggja þurfi áður lýkur þessum málum en
þar munum vér þó fyrst á treysta er Vermundur er."
Og þann sama dag riðu þeir allir er að vígum höfðu verið inn um fjörðu og
komu í Bjarnarhöfn um kveldið og gengu inn er menn voru komnir í sæti.
Vermundur heilsar þeim og rýmdi þegar öndvegið fyrir þeim Þórarni. En er
þeir höfðu niður sest þá spurði Vermundur tíðinda.
Þórarinn kvað:
Skal eg þrymviðum þremja,
þegi her meðan, segja,
von er ísarns ásum
örleiks, frá því görla
hvé hjaldrviðir héldu,
haldendr, við mig, skjaldar,
roðinn sá eg Hrundar handa
hnigreyr, löngum, dreyra.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.