Þorgerður svarar máli hans og sagði eigi spara þurfa að vinna ógrunsamlega
að við Bolla, bað þá ganga milli bols og höfuðs. Bolli stóð þá enn upp við
selsvegginn og hélt að sér kyrtlinum að eigi hlypu út iðrin. Þá hljóp
Steinþór Ólafsson að Bolla og hjó til hans með öxi á hálsinn við herðarnar
og gekk þegar af höfuðið. Þorgerður bað hann heilan njóta handa, kvað nú
Guðrúnu mundu eiga að búa um rauða skör Bolla um hríð.
Eftir þetta ganga þeir út úr selinu.
Guðrún gengur þá neðan frá læknum og til tals við þá Halldór og spurði hvað
til tíðinda hafði gerst í skiptum þeirra Bolla.
Þeir segja slíkt sem í hafði gerst.
Guðrún var í námkyrtli og við vefjarupphlutur þröngur en sveigur mikill á
höfði. Hún hafði hnýtt um sig blæju og voru í mörk blá og tröf fyrir enda.
Helgi Harðbeinsson gekk að Guðrúnu og tók blæjuendann og þerrði blóð af
spjótinu því hinu sama er hann lagði Bolla í gegnum með.
Guðrún leit til hans og brosti við.
Þá mælti Halldór: "Þetta er illmannlega gert og grimmlega."
Helgi bað hann eigi það harma "því að eg hygg það," segir hann, "að undir
þessu blæjuhorni búi minn höfuðsbani."
Síðan tóku þeir hesta sína og riðu í brott. Guðrún gekk á veg með þeim og
talaði við þá um hríð. Síðan hvarf hún aftur.

56. kafli - Af mönnum Halldórs
Það ræddu þeir förunautar Halldórs að Guðrúnu þætti lítið dráp Bolla er hún
slóst á leiðiorð við þá og átti allt tal við þá svo sem þeir hefðu ekki að
gert það er henni væri í móti skapi.
Þá svarar Halldór: "Ekki er það mín ætlan að Guðrúnu þyki lítið lát Bolla.
Hygg eg að henni gengi það meir til leiðiorðs við oss að hún vildi vita sem
gerst hverjir menn hefðu verið í þessi ferð. Er það og ekki ofmæli að Guðrún
er mjög fyrir öðrum konum um allan skörungskap. Það er og eftir vonum að
Guðrúnu þyki mikið lát Bolla því að það er satt að segja að eftir slíka menn
er mestur skaði sem Bolli var þó að vér frændur bærum eigi giftu til
samþykkis."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.