Þá mælti Án hrísmagi: "Eru þeir menn hér í ferð er Kjartani eru skyldri að
frændsemi en eg en engi mun sá að minnisamara muni vera um þann atburð er
Kjartan lést en mér. Var mér það þá í hug að eg var heim færður í Tungu
ódauður að einu, en Kjartan var veginn, að eg mundi feginn vinna Bolla mein
ef eg kæmist í færi. Mun eg fyrstur inn ganga í selið."
Þá svarar Þorsteinn svarti: "Hreystimannlega er slíkt mælt en þó er ráðlegra
að rasa eigi fyrir ráð fram og fari menn nú varlega því að Bolli mun eigi
kyrr fyrir standa er að honum er sótt. Nú þótt hann sé fáliður fyrir þá
munuð þér þar von eiga snarprar varnar því að Bolli er bæði sterkur og
vígfimur. Hefir hann og sverð það er öruggt er til vopns."
Síðan gengur Án inn í selið hart og skjótt og hafði skjöldinn yfir höfði sér
og sneri fram hinu mjórra. Bolli hjó til hans með Fótbít og af
skjaldarsporðinn og þar með klauf hann Án í herðar niður. Fékk hann þegar
bana sem von var. Síðan gekk Lambi inn. Hann hafði hlíf fyrir sér en sverð
brugðið í hendi. Í því bili kippti Bolli Fótbít úr sárinu og bar þá af honum
skjöldinn. Þá lagði Lambi í lær Bolla og varð það mikið sár. Bolli hjó í
móti á öxl Lamba og renndi sverðið ofan með síðunni. Hann varð þegar óvígur
og aldrei síðan varð honum höndin meinlaus meðan hann lifði. Í þessari
svipan gekk inn Helgi Harðbeinsson og hafði í hendi spjót það er alnar var
löng fjöðrin og járni vafið skaftið. En er Bolli sér það þá kastar hann
sverðinu en tók skjöldinn tveim höndum og gekk fram að selsdyrunum í móti
Helga. Helgi lagði til Bolla með spjótinu í gegnum skjöldinn og sjálfan
hann. Bolli hallaðist upp að selsvegginum. Nú þustu menn inn í selið,
Halldór og bræður hans. Þorgerður gekk og inn í selið.
Þá mælti Bolli: "Það er nú ráð bræður að ganga nær en hér til," kvaðst þess
vænta að þá mundi skömm vörn.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.