Halldór svarar: "Þess spyr þú eigi af því móðir að eigi vitir þú áður. Sjá
bær heitir í Tungu."
"Hver býr hér?" segir hún.
Hann svarar: "Veistu það móðir."
Þá sagði Þorgerður og blés við: "Veit eg að vísu," segir hún, "að hér býr
Bolli bróðurbani yðvar og furðu ólíkir urðuð þér yðrum frændum göfgum er þér
viljið eigi hefna þvílíks bróður sem Kjartan var og eigi mundi svo gera
Egill móðurfaðir yðvar og er illt að eiga dáðlausa sonu. Og víst ætla eg
yður til þess betur fellda að þér væruð dætur föður yðvars og væruð giftar.
Kemur hér að því Halldór sem mælt er að einn er auðkvisi ættar hverrar og sú
er mér auðsæst ógifta Ólafs að honum glaptist svo mjög sonaeignin. Kveð eg
þig af því að þessu Halldór," segir hún, "að þú þykist mest fyrir yður
bræðrum. Nú munum vér aftur snúa og var þetta erindið mest að minna yður á
þetta ef þér mynduð eigi áður."
Þá svarar Halldór: "Ekki munum vér þér það kenna móðir þótt oss líði úr hug
þetta."
Halldór svarar hér fá um og þó þrútnaði honum mjög móður til Bolla.
Líður nú vetur sjá og er sumar kemur þá líður framan til þings. Halldór
lýsir þingreið sinni og þeir bræður hans. Ríða þeir með mikinn flokk og
tjalda búð þá er Ólafur hafði átt. Var þingið kyrrt og tíðindalaust. Þeir
voru á þingi norðan Víðdælir, synir Guðmundar Sölmundarsonar. Barði
Guðmundarson var þá átján vetra gamall. Hann var mikill maður og sterkur.
Ólafssynir bjóða Barða frænda sínum heim með sér og leggja til þess mörg
orð. Hallur Guðmundarson var þá eigi hér á landi. Barði tók þessu vel því að
ástúðigt var með þeim frændum. Ríður nú Barði vestur af þingi með þeim
Ólafssonum. Koma þeir heim í Hjarðarholt og er Barði þar um sumarið það sem
eftir var.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.