Síðan gengu þeir út, Gunnlaugur og Oddur, og fóru þar til er þeir komu í
Holt. Katla var þá komin í rekkju sína. Hún bað Odd bjóða Gunnlaugi þar að
vera.
Hann sagðist það gert hafa "og vill hann heim fara," segir hann.
"Fari hann þá sem hann hefir fyrir sér gert," segir hún.
Gunnlaugur kom eigi heim um kveldið og var um rætt að hans skyldi leita fara
en eigi varð af.
Um nóttina er Þorbjörn sá út fann hann Gunnlaug son sinn fyrir dyrum. Lá
hann þar og var vitlaus. Þá var hann borinn inn og dregin af honum klæði.
Hann var allur blóðrisa um herðarnar en hlaupið holdið af beinunum. Lá hann
allan veturinn í sárum og var margrætt um hans vanheilsu. Flutti það Oddur
Kötluson að Geirríður mun hafa riðið honum, segir að þau hefðu skilið í
stuttleikum um kveldið og það hugðu flestir menn að svo væri.
Þetta vor um stefnudaga reið Þorbjörn í Mávahlíð og stefndi Geirríði um það
að hún væri kveldriða og hún hefði valdið meini Gunnlaugs. Málið fór til
Þórsnessþings og veitti Snorri goði Þorbirni mági sínum en Arnkell goði
varði málið fyrir Geirríði systur sína. Tylftarkviður átti um að skilja en
hvorgi þeirra Snorra né Arnkels þótti bera mega kviðinn fyrir hleyta sakir
við sækjanda og varnaraðilja. Var þá Helgi Hofgarðagoði kvaddur
tylftarkviðar, faðir Bjarnar, föður Gests, föður Skáld-Refs.
Arnkell goði gekk að dómi og vann eið að stallahring að því að Geirríður
hafði eigi valdið meini Gunnlaugs. Þórarinn vann eið með honum og tíu menn
aðrir. En eftir það bar Helgi af kviðinn og ónýttist málið fyrir þeim Snorra
og Þorbirni og fengu þeir af þessu óvirðing

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.