Nú riðu þeir Mýramenn og Víðdælir í Hjarðarholt. Þorsteinn Kuggason bauð
Ásgeiri syni Kjartans til fósturs til hugganar við Hrefnu. En Hrefna fór
norður með bræðrum sínum og var mjög harmþrungin. En þó bar hún sig
kurteislega því að hún var við hvern mann létt í máli. Engan tók Hrefna mann
eftir Kjartan. Hún lifði litla hríð síðan er hún kom norður og er það sögn
manna að hún hafi sprungið af stríði.

51. kafli - Kjartan grafinn
Lík Kjartans stóð uppi viku í Hjarðarholti. Þorsteinn Egilsson hafði gera
látið kirkju að Borg. Hann flutti lík Kjartans heim með sér og var Kjartan
að Borg grafinn. Þá var kirkja nývígð og í hvítavoðum. Síðan leið til
Þórsnessþings. Voru þá mál til búin á hendur þeim Ósvífurssonum og urðu þeir
allir sekir. Var gefið fé til að þeir skyldu vera ferjandi en eiga eigi
útkvæmt meðan nokkur Ólafssona væri á dögum eða Ásgeir Kjartansson. En
Guðlaugur systurson Ósvífurs skyldi vera ógildur fyrir tilför og fyrirsát
við Kjartan og öngvar skyldi Þórólfur sæmdir hafa fyrir áverka þá er hann
hafði fengið. Eigi vildi Ólafur láta sækja Bolla og bað hann koma fé fyrir
sig. Þetta líkaði þeim Halldóri og Steinþóri stórilla og svo öllum sonum
Ólafs og kváðu þungt mundu veita ef Bolli skyldi sitja samhéraðs við þá.
Ólafur kvað hlýða mundu meðan hann væri á fótum.
Skip stóð uppi í Bjarnarhöfn er átti Auðun festargarmur.
Hann var á þinginu og mælti: "Það er til kostar að þessa manna sekt mun eigi
minni í Noregi ef vinir Kjartans lifa."
Þá segir Ósvífur: "Þú Festarhundur munt verða eigi sannspár því að synir
mínir munu vera virðir mikils af tignum mönnum en þú Festargarmur munt fara
í tröllhendur í sumar."
Auðun festargarmur fór utan það sumar og braut skipið við Færeyjar. Þar
týndist hvert mannsbarn af skipinu. Þótti það mjög hafa á hrinið er Ósvífur
hafði spáð.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.