Þá mælti Án til þeirra: "Eg bið yður í guðs nafni að þér hræðist mig eigi
því að eg hefi lifað og haft vit mitt allt til þeirrar stundar að rann á mig
ómeginshöfgi. Þá dreymdi mig hin sama kona og fyrr og þótti mér hún nú taka
hrísið úr maganum en lét koma innyflin í staðinn og varð mér gott við það
skipti."
Síðan voru bundin sár þau er Án hafði og varð hann heill og var síðan
kallaður Án hrísmagi.
En er Ólafur Höskuldsson spurði þessi tíðindi þá þótti honum mikið að um víg
Kjartans en þó bar hann drengilega. Þeir synir hans vildu þegar fara að
Bolla og drepa hann.
Ólafur segir: "Það skal fjarri fara. Er mér ekki sonur minn að bættri þó að
Bolli sé drepinn. Og unni eg Kjartani um alla menn fram en eigi mátti eg
vita mein Bolla. En sé eg yður maklegri sýslu. Farið þér til móts við
Þórhöllusonu er þeir eru sendir til Helgafells að stefna liði að oss. Vel
líkar mér þótt þér skapið þeim slíkt víti sem yður líkar."
Síðan snarast þeir til ferðar Ólafssynir og gengu á ferju er Ólafur átti.
Voru þeir sjö saman, róa út eftir Hvammsfirði og sækja knálega ferðina. Þeir
hafa veður lítið og hagstætt. Þeir róa undir seglinu þar til er þeir koma
undir Skorrey og eiga þar dvöl nokkura og spyrjast þar fyrir um ferðir
manna. Og litlu síðar sjá þeir skip róa vestan um fjörðinn. Kenndu þeir
brátt mennina. Voru þar Þórhöllusynir. Leggja þeir Halldór þegar að þeim.
Þar varð engi viðtaka því að þeir Ólafssynir hljópu þegar út á skipið að
þeim. Urðu þeir Steinn handteknir og höggnir fyrir borð. Þeir Ólafssynir
snúa aftur og þótti þeirra ferð allsköruleg vera.

50. kafli - Kjartan færður til kirkju
Ólafur fór í móti líki Kjartans. Hann sendi menn suður til Borgar að segja
Þorsteini Egilssyni þessi tíðindi og það með að hann vildi hafa styrk af
honum til eftirmáls. Ef stórmenni slægist í móti með Ósvífurssonum þá kvaðst
hann allt vildu eiga undir sér.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.