Litlu síðar giftist Þórdís Berki hinum digra, bróður Þorgríms, og réðst til
bús með honum til Helgafells. Þá fór Þorgrímur sonur hennar í Álftafjörð og
var þar að fóstri með Þorbrandi. Hann var heldur ósvífur í æskunni og var
hann af því Snerrir kallaður og eftir það Snorri.
Þorbrandur í Álftafirði átti Þuríði, dóttur Þorfinns Sel-Þórissonar frá
Rauðamel. Þeir voru börn þeirra: Þorleifur kimbi elstur, annar Snorri,
þriðji Þóroddur, fjórði Þorfinnur, fimmti Þormóður. Þorgerður hét dóttir
þeirra. Þeir voru allir fóstbræður Snorra Þorgrímssonar.
Í þann tíma bjó Arnkell sonur Þórólfs bægifótar á Bólstað við Vaðilshöfða.
Hann var manna mestur og sterkastur, lagamaður mikill og forvitri. Hann var
góður drengur og umfram alla menn aðra þar í sveit að vinsældum og
harðfengi. Hann var og hofgoði og átti marga þingmenn.
Þorgrímur Kjallaksson bjó í Bjarnarhöfn, sem fyrr var sagt, og áttu þau
Þórhildur þrjá sonu. Brandur var elstur. Hann bjó í Krossnesi við
Brimlárhöfða. Annar var Arngrímur. Hann var mikill maður og sterkur,
nefmikill, stórbeinóttur í andliti, rauðbleikur á hár og vikóttur snemma,
skolbrúnn, eygður mjög og vel. Hann var ofstopamaður mikill og fullur
ójafnaðar og fyrir því var hann Styr kallaður. Vermundur hét hinn yngsti
sonur Þorgríms Kjallakssonar. Hann var hár maður, mjór og fríður sýnum. Hann
var kallaður Vermundur hinn mjóvi.
Sonur Ásgeirs á Eyri hét Þorlákur. Hann átti Þuríði, dóttur Auðunar stota úr
Hraunsfirði. Þau voru þeirra börn: Steinþór, Bergþór, Þormóður, Þórður
blígur og Helga.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.