En er Haraldur konungur spurði að Þórólfur Mostrarskegg hafði haldið Björn
Ketilsson, útlaga hans, þá gerði hann menn til hans og boðaði honum af
löndum og bað hann fara útlægan sem Björn vin hans nema hann komi á konungs
fund og leggi allt sitt mál á hans vald.
Það var tíu vetrum síðar en Ingólfur Arnarson hafði farið að byggja Ísland
og var sú ferð allfræg orðin því að þeir menn er komu af Íslandi sögðu þar
góða landakosti.

4. kafli
Þórólfur Mostrarskegg fékk að blóti miklu og gekk til fréttar við Þór,
ástvin sinn, hvort hann skyldi sættast við konung eða fara af landi brott og
leita sér annarra forlaga en fréttin vísaði Þórólfi til Íslands.
Og eftir það fékk hann sér mikið hafskip og bjó það til Íslandsferðar og
hafði með sér skuldalið sitt og búferli. Margir vinir hans réðust til ferðar
með honum. Hann tók ofan hofið og hafði með sér flesta viðu þá er þar höfðu
í verið og svo moldina undan stallanum þar er Þór hafði á setið.
Síðan sigldi Þórólfur í haf og byrjaði honum vel og fann landið og sigldi
fyrir sunnan, vestur um Reykjanes. Þá féll byrinn og sáu þeir að skar í
landið inn fjörðu stóra.
Þórólfur kastaði þá fyrir borð öndvegissúlum sínum, þeim er staðið höfðu í
hofinu. Þar var Þór skorinn á annarri. Hann mælti svo fyrir að hann skyldi
þar byggja á Íslandi sem Þór léti þær á land koma. En þegar þær hóf frá
skipinu sveif þeim til hins vestra fjarðarins og þótti þeim fara eigi vonum
seinna.
Eftir það kom hafgola. Sigldu þeir þá vestur fyrir Snæfellsnes og inn á
fjörðinn. Þeir sjá að fjörðurinn er ákaflega breiður og langur og mjög
stórfjöllótt hvorumtveggja megin. Þórólfur gaf nafn firðinum og kallaði
Breiðafjörð.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.