We will begin the Eyrbyggja Saga next Thursday.
Grace

Jökull mælti: "Það er fáheyrt að eg, tólf vetra gamall, þurfi að taka fang
við þig þar sem þú deyddir blámann Haralds konungs í fangbrögðum þínum, en
þó muntu ráða vilja.
Þeir Búi gengu þá austur undir fjallið til laugar. Þar voru vellir fagrir.
Síðan klæddust þeir til fangs og tókust allsterklega og gekk svo lengi að
hvorgi féll. Búi varð móður mjög.
Jökull mælti: "Þreytum þetta ekki meir og tak við frændsemi minni."
"Nei," kvað Búi, "falla skal annar hvor okkar."
Jökull mælti: "Eigi mun þá betur."
Eftir það réðust þeir á í annað sinn. Voru þá allmiklar sviptingar. Var þá
við sjálft búið að Jökull mundi falla. Og í því var sem kippt væri báðum
fótum senn undan Búa og féll hann áfram og þar varð við brestur hár og
mikill.
Búi mælti: "Fellt mun nú til hlítar og mátti móðir þín eigi hlutlaust láta
vera."
Þá hlupu að aðrir menn og sáu þar vegsummerki að bringspelirnir voru í
sundur í Búa og hafði orðið undir steinn.
Búi mælti þá til Jökuls: "Ekki hefir nú orðið erindi þitt hingað hagfellt
því að þú hefðir verið mannsefni enda mun nú skömm saga frá mér ganga."
Eftir það var Búi borinn heim á rauðum skildi og lifði þrjár nætur og
andaðist síðan.
Jökli þótti verk sitt svo illt að hann reið þegar í brott og til skips er
búið var suður á Eyrarbakka og fór þar utan um sumarið en síðan höfum vér
önga sögu heyrt frá honum.
Helga Þorgrímsdóttir bjó að Esjubergi með börnum þeirra Búa. Þá stóð enn
kirkja sú að Esjubergi er Örlygur hafði látið gera. Gaf þá engi maður gaum
að henni. En með því að Búi var skírður maður en blótaði aldrei þá lét Helga
húsfreyja grafa hann undir kirkjuveggnum hinum syðra og leggja ekki fémætt
hjá honum nema vopn hans.
Sú hin sama járnklukka hékk þá fyrir kirkjunni á Esjubergi er Árni biskup
réð fyrir stað, Þorláksson, og Nikulás Pétursson bjó að Hofi, og var þá
slitin af ryði. Árni biskup lét og þann sama plenarium fara suður í Skálholt
og lét búa og líma öll blöðin í kjölinn og er írskt letur á.
Frá Búa Andríðssyni er komin mikli ætt.
Og lúkum vér þar Kjalnesinga sögu.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.