Þeim Búa og Helgu varð barna auðið. Þau áttu son þann er Ingólfur hét og
annar hét Þorsteinn. Dóttur áttu þau er Hallbera hét.
Annað sumar eftir tók Þorgrímur sótt og andaðist. Var hann út leiddur að
þeim sið sem þá var og drukkið eftir hann erfi.
Í þann tíma lét Vakur af förum. Tók hann við landi í Saurbæ en Helgi tók þá
Hofsland af Búa. Tók þá Búi við mannaforræði. Hafði hann allt út að
Nýjahrauni og inn til Botnsár. Búi bjó á Esjubergi tólf vetur og átti mikið
rausnarbú. Á þeirri stundu fékk Vakur Þuríðar dóttur Búa og Ólafar.
18. kafli
En er svo var komið kom skip norður í Eyjafirði. Þar voru á þrænskir menn. Á
því skipi var sá maður er Jökull hét, ungur og stórþriflegur. Þegar er
Jökull kom á land keypti hann sér hesta og föruneyti. Reið hann síðan suður
um land og er ekki fyrr frá hans ferð sagt en hann kom aftan dags til
Esjubergs. Lét hann lítið yfir sér. Þeir voru þar um nóttina því að þar var
öllum mönnum matur til reiðu.
Um morguninn gekk Jökull til tals við Búa og mælti: "Svo er með vexti að eg
á við þig erindi Búi," sagði hann.
Búi spurði hverninn það var.
Jökull mælti: "Mér er sagt að þú sért faðir minn en Fríður er móðir mín
dóttir Dofra konungs."
Búi segir: "Ólíkleg sögn er að þú sért minn son því að mér þætti von að sá
mundi vera gildur maður er undir okkur ælist en mér sýnist þú heldur
auðþriflegur."
Jökull mælti: "Eg hefi enn ekki marga vetur á baki. En móðir mín bað mig það
segja þér til jartegna að hún kveðst hafa sagt þér að þú mundir kenna á
þínum hlut ef þú tækir eigi vel við frændsemi minni."
Búi segir: "Ekki hirði eg um sögur þínar. Þykja mér þær ómerkilegar. Vil eg
að við tökum fang því að þú ert ekki okkar son ef engi máttur er í þér."