Og við fortölur Guðrúnar miklaði Bolli fyrir sér fjandskap allan á hendur
Kjartani og sakir og vopnaðist síðan skjótt og urðu níu saman. Voru þeir
fimm synir Ósvífurs: Óspakur og Helgi, Vandráður og Torráður, Þórólfur,
Bolli hinn sétti, Guðlaugur hinn sjöundi, systurson Ósvífurs og manna
vænlegastur. Þar var Oddur og Steinn, synir Þórhöllu málgu. Þeir riðu til
Svínadals og námu staðar hjá gili því er Hafragil heitir, bundu þar hestana
og settust niður. Bolli var hljóður um daginn og lá uppi hjá gilsþreminum.
En er þeir Kjartan voru komnir suður um Mjósyndi og rýmast tekur dalurinn
mælti Kjartan að þeir Þorkell mundu snúa aftur. Þorkell kvaðst ríða mundu
þar til er þrýtur dalinn.
Og þá er þeir komu suður um sel þau er Norðursel heita þá mælti Kjartan til
þeirra bræðra að þeir skyldu eigi ríða lengra: "Skal eigi Þórólfur þjófurinn
að því hlæja að eg þori eigi að ríða leið mína fámennur."
Þorkell hvelpur svarar: "Það munum vér nú veita þér að ríða nú eigi lengra.
En iðrast munum vér þess ef vér erum eigi við staddir ef þú þarft manna við
í dag."
Þá mælti Kjartan: "Eigi mun Bolli frændi minn slá banaráðum við mig. En ef
þeir Ósvífurssynir sitja fyrir mér þá er eigi reynt hvorir frá tíðindum eiga
að segja þó að eg eigi við nokkurn liðsmun."
Síðan riðu þeir bræður vestur aftur.
49. kafli - Fall Kjartans
Nú ríður Kjartan suður eftir dalnum og þeir þrír saman, Án svarti og
Þórarinn.
Þorkell hét maður er bjó að Hafratindum í Svínadal. Þar er nú auðn. Hann
hafði farið til hrossa sinna um daginn og smalasveinn hans með honum. Þeir
sáu hvoratveggju, Laugamenn í fyrirsátinni og þá Kjartan er þeir riðu eftir
dalnum þrír saman. Þá mælti smalasveinn að þeir mundu snúa til móts við þá
Kjartan, kvað þeim það mikið happ ef þeir mættu skirra vandræðum svo miklum
sem þá var til stefnt.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.