laugina og binda sár sín. Var nú svo gert.
Búi mælti þá til Kolla: "Nú er svo Kolli," sagði Búi, "sem þér er kunnigt um
skipti okkar Ólafar. Hefi eg launað Kolfinni sína djörfung. En nú skal Ólöf
dóttir yður vera með þér þar til henni býðst forlag því að eg vil nú þó ekki
elska hana síðan Kolfinnur hefir spillt henni."
Nú varð svo að vera sem Búi vildi.

17. kafli
Búi reið þá til Esjubergs og var Esja fóstra hans enn á lífi. Varð hún honum
alls hugar fegin. Búi fór brátt í Brautarholt að finna móður sína. Var hún
þá enn hraust kona. Dvaldist Búi þar um hríð.
Þorgrímur bjó þá enn að Hofi og var þá gamall mjög. Hann átti dóttur eina
barna er Helga hét. Hún var ung og hin skörulegasta kona. Arngrímur bróðir
hans var þá og andaður en þeir bræður höfðu skipt arfi með sér. Hafði Helgi
land í Saurbæ en Vakur gerðist kaupmaður og þótti vera hinn vaskasti.
En er svo var komið völdust til vitrir menn og góðgjarnir og báru sáttmál
millum þeirra Búa og Þorgríms. Og hversu margt sem hér var um talað þá fór
það fram að þeir festu öll þessi mál, Búi og Þorgrímur, undir dóm hinna
bestu manna. Þeim málum var upp lokið um vorið á vorþingi. Höfðu þeir það
upphaf að þessum málum og sættum að Búi skyldi fá Helgu Þorgrímsdóttur en
fégjöld þau sem dæmdust á Búa skyldu vera heimanfylgja Helgu. Sáu þeir það
sem var að þau Búi áttu hvern pening eftir hans dag. Helgi Arngrímsson
skyldi fá Ólafar Kolladóttur. Eftir það veittu hvorir öðrum tryggðir. Efldu
þeir nú til veislu mikillar að Hofi því að þar skyldu vera bæði brullaupin.
Tókust þessi ráð um sumarið hvortveggi.
Litlu síðar andaðist Esja. Hún gaf allt fé sitt Búa og Þuríði dóttur hans.
Búi tók þá við búi á Esjubergi og setti þar á rausnarbú. Eftir brullaupið um
sumarið fór Helga til Esjubergs með Búa. Var það brátt auðsætt að hún var
hinn mesti skörungur. Tókst nú vinátta með þeim Þorgrími goða með mægðum.
Hélt Þorgrímur nú öllu Búa til sæmdar. Var þá þangað skotið öllum málum. Búi
færði sér það allvel í nyt. Varð hann hinn vinsælasti maður.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.