Þórhalla málga kom heim til Lauga um kveldið. Spyrja synir Ósvífurs hvað hún
hitti manna um daginn. Hún kvaðst hafa hitt Kjartan Ólafsson. Þeir spurðu
hvert hann ætlaði. Hún sagði slíkt af sem hún vissi "og aldregi hefir hann
verið vasklegri en nú og er það eigi kynlegt að slíkum mönnum þyki allt lágt
hjá sér."
Og enn mælti Þórhalla: "Auðfynt þótti mér það á að Kjartani var ekki annað
jafnlétt hjalað sem um landkaup þeirra Þórarins."
Guðrún mælti: "Vel má Kjartan því allt gera djarflega það er honum líkar því
að það er reynt að hann tekur enga þá ósæmd til að neinn þori að skjóta
skafti að móti honum."
Bæði var hjá tali þeirra Guðrúnar Bolli og synir Ósvífurs. Þeir Óspakur
svara fá og heldur til áleitni við Kjartan sem jafnan var vant. Bolli lét
sem hann heyrði eigi sem jafnan er Kjartani var hallmælt því að hann var
vanur að þegja eða mæla í móti.
48. kafli - Draumur Áns hrísmaga
Kjartan situr hinn fjórða dag páska á Hóli. Var þar hin mesta skemmtan og
gleði. Um nóttina eftir lét Án illa í svefni og var hann vakinn. Þeir spurðu
hvað hann hefði dreymt.
Hann svarar: "Kona kom að mér óþekkileg og kippti mér á stokk fram. Hún
hafði í hendi skálm og hrís í annarri. Hún setti fyrir brjóst mér skálmina
og reist á mér kviðinn allan og tók á brott innyflin og lét koma í staðinn
hrís. Eftir það gekk hún út," segir Án.
Þeir Kjartan hlógu mjög að drauminum og kváðu hann heita skyldu Án hrísmaga.
Þrifu þeir til hans og kváðust leita skyldu hvort hrís væri í maganum.
Þá mælti Auður: "Eigi þarf að spotta þetta svo mjög. Er það mitt tillag að
Kjartan geri annaðhvort að hann dveljist hér lengur, en ef hann vill ríða þá
ríði hann með meira lið héðan en hingað."
Kjartan mælti: "Vera kann að yður þyki Án hrísmagi mjög merkimáll þá er hann
situr á tali við yður um dagana er yður þykir allt sem vitran sé það er hann
dreymir. Og fara mun eg sem eg hefi áður ætlað fyrir þessum draum."