Búi þakkaði það konungi. Fór Búi þá til hafs út og fékk sér fari til
Íslands.

16. kafli
Það sumar er Búi fór utan gekk Ólöf hin væna með barni. Fæddi hún um haustið
mey er hún kenndi Búa og var kölluð Þuríður. Esja bauð meynni til fósturs
til sín og það þágu þau Kolli.
En það sumar er Búi var í Þrándheimi fóru til Íslands Helgi og Vakur. Sögðu
þeir út þau tíðindi að Búi væri látinn og Haraldur konungur hefði sent hann
forsending þá er engi hefði aftur komið. En er það spurðist fór Kolfinnur
til Kollafjarðar og tók þaðan á brott Ólöfu hina vænu nauðga og að óvilja
fölur hennar. Kolfinnur fór þá með Ólöfu út til Vatns. Var hún þar sumar og
veturinn eftir.
En um sumarið eftir kom skip suður á Eyrarbakka í höfn þá er heitir í
Einarshöfn. Spurðist það þar af að þar var á Búi Andríðsson. Og þegar þetta
spurðist ofan yfir heiði hélt Kolfinnur til njósnum um ferðir Búa og spurði
er hann kom í Ölfus. Þá reið Kolfinnur heiman upp til Öxnaskarðs við tólfta
mann. Þar var með honum Grímur frændi hans og tíu menn aðrir. Þeir sátu þar
fyrir Búa.
Í því bili reið Búi ofan úr skarðinu. Hann sá mennina vopnaða. Hann hugsar
hverjir vera mundu. Búi hafði öll góð vopn. Hann var í skyrtu sinni
Esjunaut. Búi reið til steins eins mikils er stóð undir skarðinu og sté þar
af hesti sínum. Þeir hlupu þá þangað til. Búi hafði haft snarspjót lítið í
hendi. Fleygði hann því til þeirra. Það kom í skjöld Gríms neðanverðan. Þá
brast út úr skildinum. Hljóp þá spjótið í fót Grími fyrir ofan kné og þar í
gegnum. Var Grímur þegar óvígur. Búi sneri þá baki að steininum því að hann
er svo mikill sem hamar. Mátti þá framan aðeins að honum ganga.
Kolfinnur mælti þá: "Vel er það Búi að vér höfum hér mæst. Mun nú eigi hlífa
hellir Esju tröllsins sem næst."
Búi segir: "Ekki kann eg að kasta löstum á það. Hafa þeir einir orðið fundir
okkrir er þú munt svo lítið hafa í unnið. Vænti eg að svo muni enn vera. Er
það nú drengsverk að einn gangi að einum."
Kolfinnur mælti: "Þess skulum vér nú njóta að vér erum fleiri."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.