Kjartan mælti: "Ekki kalla eg það landkaup er eigi er vottum bundið. Ger nú
annaðhvort að þú handsala mér þegar landið að þvílíkum kostum sem þú hefir
ásáttur orðið við aðra eða bú sjálfur á landi þínu ella."
Þórarinn kaus að selja honum landið. Voru nú þegar vottar að þessu kaupi.
Kjartan reið heim eftir landkaupið. Þetta spurðist um alla
Breiðafjarðardali. Hið sama kveld spurðist þetta til Lauga.
Þá mælti Guðrún: "Svo virðist mér Bolli sem Kjartan hafi þér gert tvo kosti
nokkuru harðari en hann gerði Þórarni, að þú munt láta verða hérað þetta með
litlum sóma eða sýna þig á einhverjum fundi ykkrum nokkuru óslæra en þú
hefir fyrr verið."
Bolli svarar engu og gekk þegar af þessu tali. Og var nú kyrrt það er eftir
var langaföstu.
Hinn þriðja dag páska reið Kjartan heiman við annan mann. Fylgdi honum Án
svarti. Þeir koma í Tungu um daginn. Kjartan vill að Þórarinn ríði með honum
vestur til Saurbæjar að játa þar skuldarstöðum því að Kjartan átti þar
miklar fjárreiður. Þórarinn var riðinn á annan bæ. Kjartan dvaldist þar um
hríð og beið hans. Þann sama dag var þar komin Þórhalla málga. Hún spyr
Kjartan hvert hann ætlaði að fara. Hann kvaðst fara skyldu vestur til
Saurbæjar.
Hún spyr: "Hverja skaltu leið ríða?"
Kjartan svarar: "Eg mun ríða vestur Sælingsdal en vestan Svínadal."
Hún spurði hversu lengi hann mundi vera.
Kjartan svarar: "Það er líkast að eg ríði vestan fimmtadaginn."
"Muntu reka erindi mitt?" sagði Þórhalla. "Eg á frænda vestur fyrir Hvítadal
í Saurbæ. Hann hefir heitið mér hálfri mörk vaðmáls. Vildi eg að þú heimtir
og hefðir með þér vestan."
Kjartan hét þessu.
Síðan kemur Þórarinn heim og ræðst til ferðar með þeim. Ríða þeir vestur um
Sælingsdalsheiði og koma um kveldið á Hól til þeirra systkina. Kjartan fær
þar góðar viðtökur því að þar var hin mesta vingan.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.