Búi mælti: "Ekki sýnist mér það maður. Trölli sýnist mér það líkara."
Konungur mælti: "Vér skulum freista þín skamma stund ef vér sjáum að þú
hefir ekki við."
Búi mælti: "Þér munuð ráða vilja."
Eftir það gekk Búi fram á völlinn og er fólkið sá hann þá mæltu margir að
það væri illa er trölli skyldi etja upp á jafndrengilegan mann. Þeir létu þá
lausan blámanninn. Hljóp hann þá grenjandi að Búa. Og er þeir mættust tókust
þeir afar fast og sviptust. Skildi Búi það skjótt að hann var mjög aflvani
fyrir þessu kykvendi. Forðaði hann sér þá við föllum en stóð þó fast og fór
undan víða um völlinn. Skildi Búi það að hann tók svo að bein hans mundu
brotna ef eigi hlífðu honum klæðin. Það skildi Búi að blámaðurinn vildi færa
hann að hellunni. En er þeir höfðu að gengist um stund þá mæddist
blámaðurinn ákaflega og tók að láta í honum sem þá að lætur í göltum þá er
þeir gangast að og á þann hátt felldi hann froðu. Og er Búi fann það lét
hann hörfast undan að hellunni. Blámaðurinn herti þá að af nýju og voru
ógurleg hans læti að heyra því að hann var drjúgum sprunginn af sókn. En er
Búi kom að hellunni svo að hann kenndi hennar með hælunum þá herti
blámaðurinn að slíkt er hann mátti. Búi brá þá við er minnst var von og
hljóp hann þá öfugur yfir helluna en blámanninum urðu lausar hendurnar og
skruppu af fangastakkinum. Búi kippti þá að sér blámanninum slíkt er hann
mátt. Hrataði hann þá að hellunni svo að bringspalir hans tóku þar sem
hvössust var. Þá hljóp Búi ofan á hann með öllu afli. Gengu þá í sundur
bringspelirnir í blámanninum og því næst var hann dauður. Margir töluðu um
að þetta væri mikið þrekvirki. Búi gekk þá fyrir Harald konung.
Konungur mælti: "Mikill maður ertu fyrir þér Búi og mun nú skilja með okkur
og far nú til áttjarða þinna í friði fyrir oss."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.