Fríður segir: "Kemur þér ekki það í hug að þú munir svo hafa verið hér í
vetur að þú eigir öngva von síðan að koma í Mannheima? Er þér það að gera í
kunnleika að eg geng með barni þínu."
Búi kveðst því ekki vilja í móti mæla "en þó vænti eg að þér muni nokkurninn
vel fara til mín."
Fríður mælti: "Illt mun mér nú þykja að þú sért drepinn þótt þú værir þess
verður. Mun eg nú heldur ganga til föður míns í dag og vita hvar komi þínu
máli."
Um daginn er fólk var komið í sæti gekk Fríður til föður síns og settist í
kné honum og lagði hendur um háls honum og mælti: "Hvernig ætlar þú faðir að
skiljast við Búa veturgest þinn? Væri það nú höfðinglegt að gera vel til
hans. Munu að gjarnara ágætir menn yður heimsækja."
Dofri segir: "Hvernig vel vildir þú dóttir að eg lúki við hann?"
Fríður mælti: "Gef honum ágætar gjafir faðir. Þá má það sjá að hann hefir
mikinn höfðingja og ágætan heim sótt."
Dofri mælti: "Hvað skal þar til velja?"
Fríður mælti: "Gef honum tafl það er Haraldur konungur hefir oft eftir sent
og þar með fingurgull. Má hann þá kaupa sig í frið við konung með taflinu en
fingurgullið skal hann eiga til menja."
Dofri mælti: "Ráða skaltu þessu dóttir að sinni því að eg má þér eigi
synja."
"Þá geri þú vel faðir sem von var."
Gekk hún þá í braut og til sætis síns.
Liðu þessir dagar til sumars og sumars dag hinn fyrsta mælti Fríður til Búa:
"Nú skulum við snæða hér í stofu minni. Síðan taktu klæði þín og vopn og lát
það til reiðu. Þú skalt hér skamma dvöl eiga frá því þið faðir minn
skiljið."
Eftir það gengu þau á fund Dofra. Var hann þá kominn undir borð. Dofri
heilsaði þeim og bað þau sitja og drekka. Þau gerðu svo.