Hann varð skjótari til að svara en Hrefna: "Ekki skal hún falda sér með
motri að þessu boði því að meira þykir mér skipta að Hrefna eigi hina mestu
gersemi heldur en boðsmenn hafi nú augnagaman af að sinni."
Viku skyldi haustboð vera að Ólafs. Annan dag eftir ræddi Guðrún í hljóði
til Hrefnu að hún skyldi sýna henni moturinn. Hún kvað svo vera skyldu. Um
daginn eftir ganga þær í útibúr það er gripirnir voru í. Lauk Hrefna upp
kistu og tók þar upp guðvefjarpoka en úr pokanum tók hún moturinn og sýndi
Guðrúnu. Hún rakti moturinn og leit á um hríð og ræddi hvorki um löst né
lof. Síðan hirti Hrefna moturinn og gengu þær til sætis síns. Eftir það fór
þar fram gleði og skemmtan.
En þann dag er boðsmenn skyldu í brott ríða gekk Kjartan mjög um sýslur að
annast mönnum hestaskipti, þeim er langt voru að komnir, og slíkan
fararbeina hverjum sem hafa þurfti. Ekki hafði Kjartan haft sverðið
konungsnaut í hendi þá er hann hafði að þessu gengið en þó var hann sjaldan
vanur að láta það hendi firr ganga. Síðan gekk hann til rúms síns þar sem
sverðið hafði verið og var þá á brottu. Hann gekk þegar að segja föður sínum
þessa svipan.
Ólafur mælti: "Hér skulum vér fara með sem hljóðast og mun eg fá menn til
njósnar í hvern flokk þeirra er á brott ríða."
Og svo gerði hann.
Án hinn hvíti skyldi ríða með liði Ósvífurs og hugleiða afhvarf manna eða
dvalar. Þeir riðu inn hjá Ljárskógum og hjá bæjum þeim er í Skógum heita og
dvöldust hjá skóginum og stigu þar af baki. Þórólfur son Ósvífurs fór af
bænum og nokkurir aðrir menn með honum. Þeir hurfu í brott í hrískjörr
nokkur á meðan þeir dvöldust hjá skóginum. Án fylgdi þeim til Laxár er
fellur úr Sælingsdal og kvaðst hann þá mundu aftur hverfa. Eigi taldi
Þórólfur mein á því þótt hann hefði hvergi farið. Þá nótt áður hafði fallið
lítil snæfölva svo að sporrækt var. Án reið aftur til skógar og rakti spor
Þórólfs til keldu einnar eða fens. Hann þreifar þar í niður og greip á
sverðshjöltum.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.