Hann gerði svo. Síðan skaut hún fyrir þau fögru borði og bjó það, bar síðan
að honum munnlaug af silfri og dýran dúk. Því næst bað hún hann sitja og
snæða. Tók hún þá góða vist og ágætan drykk. Allur borðbúnaður var þar af
silfri og við gull búinn, diskar og ker og spænir. Fríður settist þá niður
hjá Búa og snæddu og drukku bæði saman. Hún bað hann þá segja sér allt af
sínum ferðum. Búi gerði nú svo að hann sagði henni allt af þarkomu sinni.
"Nú hefir þú vel gert," sagði hún, "að þú hefir ekki dult mig hins sanna. Má
vera að þér verði ekki mein að því. En vita þóttist eg áður. En marga menn
hefir Haraldur konungur sent eftir tafli þessu og hefir faðir minn öllum
tortímt en nú mun eg ganga að finna hann og segja honum hvað komið er."
Fríður gekk þá á braut og var á brott um hríð. Búi fagnaði henni vel er hún
kom aftur og spurði hvað þau faðir hennar hefðu við talast. Hún kveðst hafa
sagt honum að skeggbarn eitt lítið væri komið. Hann lést vilja sjá það.
"Eg sagði að það varð að hvílast í nótt. Skaltu nú hér sofa í nótt í mínu
herbergi."
Hann lét sér það vel líka. Skemmtu þau sér þar um kveldið.

14. kafli
Búi vaknaði um morguninn og var þá ljóst af degi. Fríður spurði hversu
sofist hafði. Hann lét vel yfir.
Hún bar þá að honum ágæt klæði og mælti: "Nú skaltu halda þér upp vel er þú
gengur fyrir föður minn og kref hann djarflega jólavistar."
Gengu þau þá fram í hellinn. Síðan gekk hún fyrir þar til er fyrir urðu
hurðir og því næst komu þau í mikið herbergi. Það var allt altjaldað og
hálmur á gólfi. Maður sat í öndugi á hinum æðra bekk, mikill og fríður. Hann
hafði skegg mikið og hvítt af hæru. Þessi maður var vel búinn og allur
sýndist Búa hann öldurmannlegur. Hvortveggi bekkur var skipaður af fólki og
voru þeir margir heldur stórleitir. Konur sátu um þvert herbergið og var sú
best farandi er í miðju sat. Borð stóðu um allt herbergið og vist fram sett
og sú ein er mönnum sómdi þann tíma að neyta. Þar gengu og ungir menn og
skenktu. Fríður gekk fyrir hásætismanninn og heilsaði á föður sinn. Þessi
hinn skeggjaði maður svaraði vel dóttur sinni.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.