Kjartan tók vel undir þetta og kvað hana vel mála leita. Eftir þetta er
komið saman tali þeirra Hrefnu. Tala þau um daginn. Um kveldið spurði
Þuríður Kjartan hversu honum hefði virst orðtak Hrefnu. Hann lét vel yfir,
kvaðst kona þykja vera hin skörulegsta að öllu því er hann mátti sjá af. Um
morguninn eftir voru menn sendir til Ásgeirs og boðið honum í Ásbjarnarnes.
Tókst nú umræða um mál þeirra og biður Kjartan nú Hrefnu dóttur Ásgeirs.
Hann tekur því máli líklega því að hann var vitur maður og kunni að sjá
hversu sæmilega þeim er boðið. Kálfur er þessa máls mjög flýtandi: "Vil eg
ekki láta til spara."
Hrefna veitti og eigi afsvör fyrir sína hönd og bað hún föður sinn ráða. Er
nú þessu máli á leið snúið og vottum bundið. Ekki lætur Kjartan sér annað
líka en brullaup sé í Hjarðarholti. Þeir Ásgeir og Kálfur mæla ekki þessu í
mót. Er nú ákveðin brullaupsstefna í Hjarðarholti þá er fimm vikur eru af
sumri.
Eftir það reið Kjartan heim með stórar gjafir. Ólafur lét vel yfir þessum
tíðindum því að Kjartan var miklu kátari en áður hann fór heiman.
Kjartan fastaði þurrt langaföstu og gerði það að engis manns dæmum hér á
landi því að það er sögn manna að hann hafi fyrstur manna fastað þurrt hér
innanlands. Svo þótti mönnum það undarlegur hlutur að Kjartan lifði svo
lengi matlaus að menn fóru langar leiðir að sjá hann. Með slíku móti voru
aðrir hættir Kjartans umfram aðra menn. Síðan gengu af páskarnir.
Eftir það láta þeir Kjartan og Ólafur stofna til veislu mikillar. Koma þeir
norðan, Ásgeir og Kálfur, að á kveðinni stefnu og Guðmundur og Hallur og
höfðu þeir allir saman sex tigu manna. Þeir Kjartan höfðu og mikið fjölmenni
fyrir. Var sú veisla ágæt því að viku var að boðinu setið. Kjartan gaf
Hrefnu að línfé moturinn og var sú gjöf allfræg því að engi var þar svo
vitur eða stórauðigur að slíka gersemi hefði séð eða átta.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.