Eru þá þegar leikar lagðir í Ásbjarnarnesi og safnað víða til um héruð. Kom
til vestan úr Miðfirði og af Vatnsnesi og úr Vatnsdal og allt utan úr
Langadal. Varð þar mikið fjölmenni. Allir menn höfðu á máli hversu mikið
afbragð Kjartan var annarra manna. Síðan var aflað til leiks og beitist
Hallur fyrir. Hann bað Kjartan til leiks: "Vildum vér frændi að þú sýndir
kurteisi þína í þessu."
Kjartan svarar: "Lítt hefi eg tamið mig til leika nú hið næsta því að annað
var tíðara með Ólafi konungi. En eigi vil eg synja þér um sinnsakir þessa."
Býst nú Kjartan til leiks. Var þeim mönnum að móti honum skipt er þar voru
sterkastir. Er nú leikið um daginn. Hafði þar engi maður við Kjartani,
hvorki afl né fimleik.
Og um kveldið er leik var lokið þá stendur upp Hallur Guðmundarson og mælti:
"Það er boð föður míns og vilji um alla þá menn er hingað hafa lengst sótt
að þeir séu hér allir náttlangt og taki hér á morgun til skemmtanar."
Þetta erindi ræmdist vel og þótti stórmannlega boðið. Kálfur Ásgeirsson var
þar kominn og var einkar kært með þeim Kjartani. Þar var og Hrefna systir
hans og hélt allmjög til skarts. Var þar aukið hundrað manna á búi um
nóttina. Um daginn eftir var þar skipt til leiks. Kjartan sat þá hjá leik og
sá á.
Þuríður systir hans gekk til máls við hann og mælti svo: "Það er mér sagt
frændi að þú sért heldur hljóður veturlangt. Tala menn það að þér muni vera
eftirsjá að um Guðrúnu. Færa menn það til þess að engi blíða verður á með
ykkur Bolla frændum, svo mikið ástríki sem með ykkur hefir verið allar
stundir. Ger svo vel og hæfilega að þú lát þér ekki að þessu þykja og unn
frænda þínum góðs ráðs. Þætti oss það ráðlegast að þú kvongaðist eftir því
sem þú mæltir í fyrra sumar þótt þér sé eigi þar með öllu jafnræði sem
Hrefna er því að þú mátt eigi það finna innanlands. Ásgeir faðir hennar er
göfugur maður og stórættaður. Hann skortir og eigi fé að fríða þetta ráð. Er
og önnur dóttir hans gift ríkum manni. Þú hefir og mér sagt að Kálfur
Ásgeirsson sé hinn röskvasti maður. Er þeirra ráðahagur hinn skörulegsti.
Það er minn vilji að þú takir tal við Hrefnu og væntir mig að þér þyki þar
fara vit eftir vænleik."