Búi kveðst það eigi vita. Konungur bað kalla til sín Helga og Vakur.
Og er þeir komu fyrir konung mælti hann: "Kennið þið nokkuð þenna hinn mikla
mann?"
"Já," sögðu þeir, "það mundi hann reyna ef þér væruð eigi svo nær og gjarna
biðjum við yður að þér gefið okkur orlof til að hefna á honum harma
okkarra."
Konungur mælti: "Á öngum manni níðist eg þeim er gengur á mitt vald. Sé eg
ykkur öngan ágóða þótt þér reynið með yður jafnbúnum. En af því Búi að þú
vannst það níðingsverk að þú brenndir inni goð vor er öllum mönnum hæfir að
tigna, þar fyrir skyldi eg hafa látið drepa þig ef þú hefðir eigi á vort
vald gengið. En nú skaltu leysa höfuð þitt með einni sendiferð. Þú skalt
sækja tafl til Dofra fóstra míns og færa mér."
Búi mælti: "Hvert skal eg þá fara?"
Konungur mælti: "Hygg þú sjálfur fyrir því."
Búi mælti: "Það munu margir mæla herra að þetta sé forsending en þó mun eg
undir játast. Vil eg þá að þér festið mér grið þar til er eg kann aftur að
koma."
Konungur kvað svo vera skyldu.
Búi fór þá braut úr bænum og var um sumarið inn í Þrándheimi. Hann fréttist
þá fyrir um örnefni. Var honum þá sagt hvar Dofrafjall var.
13. kafli
Öndverðan vetur þá er snjó lagði á fjöll sneri Búi ferð sinni upp í
byggðina. Dvaldist hann þá í ofanverðri byggðinni um hríð með bónda þeim er
Rauður hét. Búi spurði Rauð ef hann kynni nokkuð ráð til að leggja með honum
að hann kæmi fram ferðinni.
Rauður mælti: "Marga menn hefir konungur sent þessa erindis og hefir engi
aftur komið og auðsýnt er mér að konungur vill þig feigan. En öngra manna
veit eg þeirra von að viti hvar Dofri ræður fyrir nema Haraldur konungur. En
þar þú hefir mig sóttan þá skal eg til leggja nokkuð. Eg mun vísa þér leið
til Dofrafjalls og svo gnípu þeirrar er flestir menn ætla að hellir Dofra
muni í vera. Haga þú og svo til að þú kom undir þá gnípu jólaaftan en síðan
verður þú að leitast um. Ekki kann eg meira að að gera."