Búi létti eigi fyrr sinni ferð en hann kom norður í Hrútafjörð. Tók hann sér
þar fari og er þeir voru búnir sigldu þeir á haf.
Þeir bræður Helgi og Vakur tóku sér fari um sumarið í Kollafirði og fóru
utan báðir. Þeir tóku Noreg og fóru til hirðar Haralds konungs hins
hárfagra. Voru þeir með konungi um veturinn og þokkuðust hverjum manni vel.
Þeir sögðu konungi frá skiptum þeirra Búa. Lét konungur illa yfir því er Búi
hafði brennt hofið og kallaði það níðingsverk.

12. kafli
Nú er að segja frá Búa. Þeim byrjaði seint og tóku Orkneyjar um haustið
síðarla. Þá réð eyjunum Einar jarl Rögnvaldsson. Búi fór til hirðar jarls og
gekk fyrir hann og kvaddi hann. Jarl spurði hver hann væri.
Búi sagði af hið ljósasta "og vildi eg þiggja veturvist með yður herra."
Jarl segir: "Fylgd góð mun í þér. Skaltu víst vera með oss í vetur ef þú
vilt."
Búi var með hirð jarlsins um veturinn. Einar jarl hafði starfsamt um
veturinn. Var Búi hinn öruggasti í öllum mannraunum. En um vorið er skip það
bjóst til Noregs er Búi hafði þangað á farið þá gekk Búi fyrir jarl og bað
hann orlofs.
Jarl segir: "Hitt þykir mér ráðlegra Búi að þú dveljist með oss. Höfum vér
þig að röskum manni reynt. Munum vér leiða þig í hirðlög og láta þig taka
þar með aðrar sæmdir ef þú vilt hér vera."
Búi þakkaði jarli með fögrum orðum en kveðst vilja til Noregs. Jarl kvað svo
vera skyldu. Eftir það sigldu þeir til Noregs og komu að norðarlega. Spurðu
þeir að Haraldur konungur sat í Þrándheimi. Fór Búi til Þrándheims á einum
byrðingi. Og er hann kom til Steinkera þá gekk hann fyrir konung er hann sat
yfir borðum og kvaddi hann vel. Konungur spurði hver sá væri hinn mikli
maður. Búi sagði til allt hið sanna. Konungur spurði hvar hann hefði verið
um veturinn.
Búi sagði honum "og er eg því hér kominn herra," sagði hann, "að eg vil
bjóða yður mína þjónustu."
Konungur mælti: "Muntu nokkuð eiga hér vel kvæmt?"

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.