En fátt varð þeim að orðum þaðan í frá. Í þessu bili tekur Ingibjörg til
mjöðdrekku er stendur hjá henni. Hún tekur þar úr motur hvítan, gullofinn,
og gefur Kjartani og kvað Guðrúnu Ósvífursdóttur helsti gott að vefja honum
að höfði sér "og muntu henni gefa moturinn að bekkjargjöf. Vil eg að þær
Íslendinga konur sjái það að sú kona er eigi þrælaættar er þú hefir tal átt
við í Noregi."
Þar var guðvefjarpoki um utan. Var það hinn ágætasti gripur.
"Hvergi mun eg leiða þig," sagði Ingibjörg, "far nú vel og heill."
Eftir það stendur Kjartan upp og hvarf til Ingibjargar og höfðu menn það
fyrir satt að þeim þætti fyrir að skiljast.
Gengur nú Kjartan í brott og til konungs, sagði konungi að hann er þá búinn
ferðar sinnar. Ólafur konungur leiddi Kjartan til skips og fjöldi manns með
honum. Og er þeir komu þar sem skipið flaut og var þá ein bryggja á land.
Þá tók konungur til orða: "Hér er sverð Kjartan er þú skalt þiggja af mér að
skilnaði okkrum. Láttu þér vopn þetta fylgjusamt vera því að eg vænti þess
að þú verðir eigi vopnbitinn maður ef þú berð þetta sverð."
Það var hinn virðulegsti gripur og búið mjög.
Kjartan þakkaði konungi með fögrum orðum alla þá sæmd og virðing er hann
hafði honum veitt meðan hann hafði verið í Noregi.
Þá mælti konungur: "Þess vil eg biðja þig Kjartan að þú haldir vel trúna."
Eftir það skiljast þeir konungur og Kjartan með miklum kærleik. Gengur þá
Kjartan út á skip.
Konungurinn leit eftir honum og mælti: "Mikið er að Kjartani kveðið og kyni
hans og mun óhægt vera atgerða við forlögum þeirra."