En er sumar kom þá gengu skip landa í milli. Þá spurðust þau tíðindi til
Noregs af Íslandi að það var alkristið. Varð Ólafur konungur við það
allglaður og gaf leyfi öllum til Íslands þeim mönnum er hann hafði í
gíslingum haft og fara hvert er þeim líkaði.
Kjartan svarar því að hann var fyrir þeim mönnum öllum er í gíslingu höfðu
verið haldnir: "Hafið mikla þökk og þann munum vér af taka að vitja Íslands
í sumar."
Þá segir Ólafur konungur: "Eigi munum vér þessi orð aftur taka Kjartan en þó
mæltum vér þetta ekki síður til annarra manna en til þín því að vér virðum
svo Kjartan að þú hafir hér setið meir í vingan en gíslingu. Vildi eg að þú
fýstist eigi út til Íslands þó að þú eigir þar göfga frændur því að kost
muntu eiga að taka þann ráðakost í Noregi er engi mun slíkur á Íslandi."
Þá svarar Kjartan: "Vor herra launi yður þann sóma er þér hafið til mín gert
síðan er eg kom á yðvart vald. En þess vænti eg að þér munuð eigi síður gefa
mér orlof en þeim öðrum er þér hafið hér haldið um hríð."
Konungur kvað svo vera skyldu en segir sér torfengan slíkan mann ótiginn sem
Kjartan var.
Þann vetur hafði Kálfur Ásgeirsson verið í Noregi og hafði áður um haustið
komið vestan af Englandi með skip þeirra Kjartans og kaupeyri. Og er Kjartan
hafði fengið orlofið til Íslandsferðar halda þeir Kálfur á búnaði sínum.
Og er skipið var albúið þá gengur Kjartan á fund Ingibjargar konungssystur.
Hún fagnaði honum vel og gefur rúm að sitja hjá sér og taka þau tal saman.
Segir Kjartan þá Ingibjörgu að hann hefir búið ferð sína til Íslands.
Þá svarar hún: "Meir ætlum vér Kjartan að þú hafir gert þetta við einræði
þitt en menn hafi þig þessa eggjað að fara í brott af Noregi og til
Íslands."