Bolli kvaðst hafa á vikið um sinnsakir og kvað hana hafa ekki mjög á tekið:
"Vænti eg þó að Ósvífur muni mestu um ráða þetta mál."
Ólafur kvað hann með mundu fara sem honum líkaði.
Eigi miklu síðar ríður Bolli heiman og með honum synir Ólafs, Halldór og
Steinþór. Voru þeir tólf saman. Þeir ríða til Lauga. Ósvífur fagnar þeim vel
og synir hans. Bolli kvaddi Ósvífur til máls við sig og hefur upp bónorð
sitt og bað Guðrúnar dóttur hans.
En Ósvífur svarar á þá leið: "Svo er sem þú veist Bolli að Guðrún er ekkja
og á hún sjálf svör fyrir sér. En fýsa mun eg þessa."
Gengur nú Ósvífur til fundar við Guðrúnu og segir henni að þar er kominn
Bolli Þorleiksson "og biður þín. Áttu nú svör þessa máls. Mun eg hér um
skjótt birta minn vilja að Bolla mun eigi frá hnekkt ef eg skal ráða."
Guðrún svarar: "Skjótlitið gerir þú þetta mál og ræddi Bolli eitt sinn þetta
mál fyrir mér og veik eg heldur af og það sama er mér enn í hug."
Þá segir Ósvífur: "Þá munu margir menn mæla að þetta sé meir af ofsa mælt en
mikilli fyrirhyggju ef þú neitar slíkum manni sem Bolli er. En meðan eg er
uppi þá skal eg hafa forsjá fyrir yður börnum mínum um þá hluti er eg kann
gerr að sjá en þér."
Og er Ósvífur tók þetta mál svo þvert þá fyrirtók Guðrún eigi fyrir sína
hönd og var þó hin tregasta í öllu. Synir Ósvífurs fýsa þessa mjög, þykir
sér mikil slægja til mægða við Bolla. Og hvort sem að þessum málum var setið
lengur eða skemur þá réðst það af að þar fóru festar fram og kveðið á
brullaupsstefnu um veturnáttaskeið. Síðan ríður Bolli heim í Hjarðarholt og
segir Ólafi þessa ráðastofnun. Hann lætur sér fátt um finnast. Er Bolli
heima þar til er hann skal boðið sækja. Bolli bauð Ólafi frænda sínum en
Ólafur var þess ekki fljótur og fór þó að bæn Bolla. Veisla var virðuleg að
Laugum. Bolli var þar eftir um veturinn. Ekki var margt í samförum þeirra
Bolla af Guðrúnar hendi.