Búi fór nú til þess er hann kom í hólminn. Var þar Kolfinnur fyrir og fjöldi
manns því að forvitni mikil var mönnum að sjá atgang þessa ungu manna því að
báðir voru þeir sterklegir.
Það var þá siður að kasta feldi undir fætur sér. Það voru lög þeirra að sá
þeirra er af feldi hopaði skyldi leysa sig þrem mörkum silfurs. Sá þeirra
var óvígur er fyrri lét sitt blóð á jörð.
Eftir það voru sögð upp hólmgöngulög milli þeirra. Búi átti fyrr að höggva
því að honum var á hólm skorað. Hvortveggi hafði góðan skjöld og öll önnur
vopn. Búi hjó þá til Kolfinns. Kolfinnur brá þá við skildinum og tók af
öðrumegin mundriða. Eftir það hjó Kolfinnur þvílíkt högg til Búa. Búi hjá þá
til Kolfinns og gerði ónýtan fyrir honum skjöldinn og særði hann miklu sári
á höndina. Var Kolfinnur þegar óvígur. Menn hlupu þá í millum þeirra og voru
þeir skildir. Eftir það fór hvor leið sína.
Fór Kolfinnur á Korpúlfsstaði og batt Korpúlfur sár hans og kvað eigi minna
að von um skipti þeirra Búa. Dvaldist Kolfinnur nú þar um stund.
Búi sneri frá hólmstefnu heim til Kollafjarðar og var Ólöf við laug og
heilsaði Búa.
Hann tók kveðju hennar og mælti: "Svo hefir nú borið til um fund okkarn Ólöf
að eg mun eigi einn saman fara til hellis míns. Þykir mér og leiðint að
ganga hingað hvern dag til tals við þig. Muntu nú fara með mér að sinni."
Ólöf segir: "Það mun föður mínum illa hugna."
Búi segir: "Hann mun nú ekki að spurður."
Tók hann þá Ólöfu upp á handlegg sér og gekk leið sína. Fóru þau þar til er
þau komu í helli Búa.
Var Esja þar fyrir og heilsaði þeim: "Þykir mér þú Búi nú haft hafa vel að
máli, varið hana Ólöfu fyrir vanmennum enda flutt hana nú úr klandri þeirra.
Skaltu Ólöf mín vera hér velkomin."
Ólöf kvað nú Búa mundu ráða sínum vistum að sinni.
Kolfinnur spurði brotttöku Ólafar.